Leystu ráðgátuna um áletrun Ópsins

„Áletrunin er án vafa eftir Munch sjálfan,“ segir safnvörðurinn.
„Áletrunin er án vafa eftir Munch sjálfan,“ segir safnvörðurinn. AFP

Dularfull áletrun í Ópinu, málverkinu fræga eftir norska listamanninn Edvard Munch, hefur árum saman vakið fjölda spurninga í listaheiminum. Sérfræðingar í Noregi hafa nú ályktað að enginn annar en listamaðurinn sjálfur hafi verið með blýantinn að vopni.

Í efra vinstra horni málverksins, í svo smáu letri að það sést vart með berum augum, kemur fyrir setningin: „Kan kun være malet av en gal mand!“

Eða á íslensku: „Getur aðeins hafa verið málað af gölnum manni!“

Fyrsta sýning verksins fyrir almenningi í Ósló vakti mjög mikla …
Fyrsta sýning verksins fyrir almenningi í Ósló vakti mjög mikla gagnrýni. AFP

Nötraði af örvæntingu

Munch málaði verkið árið 1895. Hann lýsti inn­blæstri sín­um fyr­ir gerð mynd­ar­inn­ar í dag­bókar­færslu:

„Ég gekk eft­ir vegi ásamt tveim­ur vin­um – það var sól­set­ur – skyndi­lega blóðgaðist him­inn­inn – Ég staldraði við, upp­gef­inn, og hallaði mér að hand­riði – blóð og eld­tung­ur voru fyr­ir ofan blás­vart­an fjörðinn og borg­ina – vin­ir mín­ir gengu áfram en ég stóð þar nötrandi af ör­vænt­ingu – og ég skynjaði óend­an­legt óp streyma í gegn­um nátt­úr­una.“

Höfundur áletrunarinnar hefur lengi verið á huldu. Helsta kenningin til þessa hefur verið á þá leið að óánægður listneytandi hafi skrifað skilaboðin í upphafi 20. aldarinnar á þessa útgáfu málverksins, sem er ein af fjórum eftir Munch.

En með því að nota innrauða ljóstækni til að kanna rithöndina, hafa sérfræðingar við norska þjóðminjasafnið skorið úr um að málarinn hafi sjálfur verið að verki.

Innrauð ljóstækni var notuð til að sjá betur áletrunina.
Innrauð ljóstækni var notuð til að sjá betur áletrunina. AFP

Gagnrýni og spurningar um geðheilsu

„Áletrunin er án vafa eftir Munch sjálfan,“ segir safnvörðurinn Mai Britt Guleng í yfirlýsingu.

„Skriftin sjálf, sem og atburðir sem áttu sér stað árið 1895, þegar Munch sýndi málverkið í Noregi í fyrsta sinn, bendir allt í sömu átt.“

Fyrsta sýning verksins fyrir almenningi í Ósló, sem þá nefndist Kristjanía, vakti mjög mikla gagnrýni og um leið spurningar um geðheilsu málarans. Að sögn Guleng leiddi þetta líklega til þess að Munch ákvað að veita verki sínu þessa umsögn.

Munch, einn helstu frumkvöðla expressjónisma, var lengi þjakaður af ótímabærum fráföllum náinna skyldmenna en móðir hans og systir létust báðar vegna veikinda. Árið 1908 var hann lagður tímabundið inn á geðsjúkrahús.

Stolið árið 1994

Þessari útgáfu málverksins var stolið árið 1994, á opnunardegi Vetrarólympíuleikanna í Lillehammer. Það kom í leitirnar nokkrum mánuðum síðar.

Hægt verður að berja verkið augum þegar safnið opnar aftur í nýrri byggingu á næsta ári.

mbl.is