Ráðþrota eftir líkfund

Lögreglan í Agder hefur ekki úr miklu að moða við …
Lögreglan í Agder hefur ekki úr miklu að moða við að komast til botns í því hvers bein það voru sem fundust sjórekin á hólma við Lyngør í Tvedestrand 27. mars. Þó er talið að um konu milli tvítugs og þrítugs sé að ræða og hún hafi klæðst þessum buxum á efsta degi. Ljósmynd/Lögreglan í Agder

Lögreglan í Agder í Noregi neyddist til að játa sig sigraða í gær og leita til almennings um ábendingar. Hafði hún þá neytt flestra ráða til að komast að því hver sjórekið lík, sem fannst 27. mars á hólma úti fyrir Lyngør í Tvedestrand, hefði verið í lifanda lífi.

Sá eða sú sem tilkynnti um líkið hafði verið í göngutúr í nágrenni Lyngør sem er um það bil miðja vegu milli Tønsberg og Kristiansand í Suður-Noregi. Þar eru tugir smáhólma úti fyrir ströndinni og hægt að ganga þurrum fótum milli margra þeirra, þar á meðal út í Nautholmen, þar sem báran lék við líkamsleifarnar í flæðarmálinu.

Að sögn Odd Holum, lénsmanns í umdæmi lögreglunnar í Agder, telur lögreglan líkið, sem ekki er mikið annað en beinagrindin, vera af konu, líklega á þrítugsaldri, og var hún líkast til klædd buxum sem einnig fundust á vettvangi og lögreglan hefur látið birta mynd af í norskum fjölmiðlum.

Kafarar, lögregla og björgunarsveitarfólk leituðu dyrum og dyngjum að frekari …
Kafarar, lögregla og björgunarsveitarfólk leituðu dyrum og dyngjum að frekari vísbendingum á og við Nautholmen þar sem vegfarandi rakst á sjóreknar líkamsleifar í lok mars, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Ljósmynd/Redningsselskapet/Inge Stensland

Ekki er margt annað í hendi við rannsóknina og tekst lögreglu ekki að tengja líkamsleifarnar neinni manneskju sem saknað er í Suður-Noregi svo óyggjandi sé. Leitin teygir því anga sína nú til alls Noregs og einnig annarra landa. Kafarar og björgunarsveitarfólk hafa þegar fínkembt hólmann og nágrenni hans, ofan- sem neðansjávar án frekari vísbendinga. Eitt af fáum og rýrum hálmstráum er hvort einhver beri kennsl á gömlu buxurnar.

Ein kenning er þó á borðinu. Í júní 2016 hvarf 37 ára gömul kínversk kona, Xi Li, sporlaust eftir dvöl í sumarbústað á Østerøya í bænum Sandefjord, skammt frá Tønsberg. Farangur hennar og eigur voru í bústaðnum en af henni sjálfri fannst hvorki tangur né tetur.

Lyngør í Tvedestrand er um það bil miðja vegu milli …
Lyngør í Tvedestrand er um það bil miðja vegu milli Tønsberg og Kristiansand í Suður-Noregi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Krg

Umfangsmikil leit var gerð að Li úr þyrlu og með fjarstýrðum leitarkafbáti auk þess sem björgunarsveitir með hunda, fólk frá Rauða krossinum, Norsk Folkehjelp, heimavarnaliðið og sjálfboðaliðar gengu fjörur dögum saman. Sú leit skilaði engu og var sem jörðin – eða sjórinn – hefði gleypt Li.

Í fyrstu féll grunur lögreglu á norskan eiginmann Li. Þau voru búsett í Kína ásamt tveimur börnum sínum en komu reglulega til Noregs í frí. Eftir að hafa yfirheyrt hann og fleiri úr fjölskyldu hans féll lögreglan frá grunsemdum sínum án þess að vilja gera grundvöll þeirrar ákvörðunar heyrum kunnan.

Ein fárra kenninga lögreglunnar í Agder um beinafundinn er að …
Ein fárra kenninga lögreglunnar í Agder um beinafundinn er að þar séu komnar jarðneskar leifar Xi Li, 37 ára gamallar kínverskrar konu sem hvarf sporlaust í sumarbústaðaferð á Østerøya við Sandefjord fyrir tæpum fimm árum, í júní 2016. Ljósmynd/Úr einkasafni

Tveimur árum síðar, sumarið 2018, komu foreldrar Li til Sandefjord frá Kína til að kynna sér vettvanginn þar sem síðast sást til dóttur þeirra á lífi. Ræddu þau hjónin við norska fjölmiðla og biðluðu til norsks almennings að koma jafnvel lítilfjörlegustu ábendingum um örlög dóttur þeirra á framfæri við lögreglu. Kváðust þau ákaflega þakklát fyrir framlag lögreglu, sjálfboðaliða og annarra sem lagt hefðu gjörva hönd á plóg við að reyna að svipta hulunni af voveiflegu hvarfi Li sumarið 2016.

Ein af örfáum kenningum lögreglunnar í Agder er að það séu jarðneskar leifar kínversku konunnar sem skolaði á land við Lyngør, um 100 kílómetra suðvestur af Sandefjord, tæpum fimm árum eftir hvarf hennar.

NRK

NRKII (hvarf Xi Li sumarið 2016)

VG

Grimstad Adressetidende

mbl.is