Navalní fái ekki að deyja í fangelsi

Alexei Navalny.
Alexei Navalny. AFP

Sendiherra Rússlands í Bretlandi segir að rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní „fái ekki að deyja í fangelsi“.

Læknar Navalnís sögðu í gær að hann myndi deyja á næstu dögum fengi hann ekki viðeigandi læknisaðstoð. Navalní hefur verið í hungurverkfalli síðustu 18 daga til þess að krefjast viðeigandi meðferðar við bakverkjum og dofa í fótum. Læknar hans segja að nýlegar blóðprufur bendi til þess að hann gæti fengið hjartaáfall eða nýrnabilun hvenær sem er. 

Í samtali við BBC sagði Andrei Kelin, sendiherra Rússlands í Bretlandi, að Navalní fengi viðeigandi aðstoð og hann væri fyrst og fremst að sækjast eftir athygli með ákalli sínu eftir aðstoð.

„Navalní hefur fengið meðferð á sjúkrahúsi sem er ekki svo langt frá staðnum þar sem hann er að afplána dóm sinn og eins og ég skil þetta kvartar hann ekki lengur,“ sagði Kelin, sem spurði síðan hvort breskir fangar gætu óskað eftir læknisaðstoð frá heimilislækni sínum.

mbl.is