5 þúsund manns grímulaus á tónleikum

Fimm þúsund tónlistarunnendur komu saman á tónleikum í Liverpool á Bretlandi um helgina. Viðburðurinn var hluti af tilraunastarfsemi breskra stjórnvalda um hvernig megi halda fjölmenna viðburði í lok heimsfaraldurs. 

Hljómsveitin Blossoms lék fyrir dansi í Sefton Park í Liverpool og gleðin leyndi sér ekki á meðal tónleikagesta. 

Tónlistarmennirnir voru líka einstaklega spenntir fyrir tónleikunum. „Við erum svo spenntir að spila fyrir áhorfendur. Sérstaklega ef atvinnugreinin okkar opnast aftur. Það er búið að vera lokað svo lengi, með svo litlum stuðningi, ef einhverjum, svo það verður gott að snúa aftur. Halda áfram,“ sagði söngvarinn Tom Ogden fyrir tónleikana við BBC.

Þótt ótrúlegt megi virðast var þessi mynd tekin um helgina …
Þótt ótrúlegt megi virðast var þessi mynd tekin um helgina þar sem fimm þúsund manns komu saman á tónleikum. AFP

Allir sem fóru á tónleikana þurftu að fara í kórónuveirupróf í gær, laugardag, og fylla út spurningalista. Þá þurfa þeir að taka tvö kórónuveirupróf heima hjá sér í dag, sunnudag, og svo á föstudaginn eftir viku. Ekki var gerð krafa um notkun andlitsgríma á viðburðinum. 

Bresk stjórnvöld prófa sig nú áfram með fjölmenna viðburði og sóttvarnareglur. Á föstudag og laugardag var skemmtistaður opinn og mættu þrjú þúsund hvort kvöldið. DJ Fatboy Slim, Sven Vath og The Blessed Madonna komu fram. 

Gleðin leyndi sér ekki.
Gleðin leyndi sér ekki. AFP
Blossoms-liðar voru spenntir að stíga aftur á svið.
Blossoms-liðar voru spenntir að stíga aftur á svið. AFP
mbl.is