„Tæknilegar ástæður“

AFP

Stjórnvöld í Rússlandi segja ástæðuna fyrir því að nokkur evrópsk flugfélög hafi þurft að aflýsa flugferðum til Moskvu, eftir að þau neituðu að fljúga yfir Hvíta-Rússland, vera tæknilega.

„Flugmálayfirvöld munu veita nauðsynlegar útskýringar en ástæðan fyrir þessu er tæknilegs eðlis,“ segir talsmaður rússneskra stjórnvalda, Dmitrí Peskov, á fundi með fréttamönnum í dag. 

Air France þurfti að aflýsa öðru flugi í dag til Moskvu frá París eftir að Rússar höfnuðu flugáætlun félagsins þar sem fram kom að það yrði ekki flogið yfir lofthelgi Hvítrússa. Á miðvikudag þurfti Air France einnig að aflýsa flugi til Moskvu af sömu ástæðu en Evrópusambandið hefur hvatt flugfélög um að forðast að fljúga inn í lofthelgi Hvíta-Rússlands eftir að þotu Ryanair var gert að lenda í Minsk um síðustu helgi. Yfirvöld þar létu handtaka hvítrússneskan blaðamann og rússneska unnustu hans við komuna til Minsk en þau voru á leið frá Aþenu til Vilnius með Ryanair. 

Í gær þurfti Austrian Airlines að aflýsa flugi milli Vínar og Moskvu vegna sömu ástæðu.

Josep Borrell, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn ESB, sagði fyrr í vikunni að sambandið fylgdist grannt með því hvort Rússar væru kerfisbundið að hafna beiðnum evrópskra flugfélaga um lendingarleyfi en þau færu ekki yfir Hvíta-Rússland. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert