Tugir kvenna stefna Pornhub

AFP

Rúmlega þrjátíu konur hafa höfðað mál gegn klámsíðunni Pornhub fyrir dómstól í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum. Konurnar saka Pornhub um að græða á myndefni sem sýnir nauðganir og kynferðislega misnotkun. 

Lögfræðingar þeirra 34 kvenna sem stefna í málinu segja Pornhub, sem er ein stærsta klámsíða heims, hafa skapað vettvang fyrir barnaklám og annars konar efni sem ekki liggur samþykki fyrir. Konurnar krefjast skaðabóta í málinu. 

„Þetta er mál sem varðar nauðgun, ekki klám,“ segir í stefnum kvennanna. 

Allir stefnendur nema einn hafa valið að koma ekki fram undir nafni. Fjórtán þeirra segjast hafa verið undir lögaldri þegar myndefni af þeim var tekið upp og að skilgreina eigi þær sem fórnarlömb mansals. 

Serena Fleites, sem er eina konan sem kaus að koma fram undir nafni, uppgötvaði árið 2014 að klámfengið efni sem fyrrverandi kærasti hennar hafði þvingað hana til að taka upp þegar hún var þrettán ára hafði verið birt á Pornhub án hennar samþykkis. 

Um 130 milljónir skoða vefsíðu Pornhub daglega. Vefsíðan hefur neitað ásökunum um mansal og tilkynnt um umbætur á vefsíðunni. 

mbl.is