Lögðu hald á 1,6 milljónir sígaretta

Höfuðstöðvar Europol í Hollandi.
Höfuðstöðvar Europol í Hollandi. AFP

Löggæslustofnun Evrópusambandsins, Europol, ásamt pólskum löggæsluyfirvöldum kom upp um þaulskipulagða og stórfellda ólöglega framleiðslu á sígarettum í Póllandi. Sextán manns voru handteknir í tengslum við málið. Þetta kemur fram í tilkynningu Europol um málið.

Á þriðjudaginn síðasta var framkvæmd leit á mörgum mismunandi stöðum í Varsjá en yfir eitt hundrað löggæslumenn úr landamæraeftirliti Póllands tóku þátt í aðgerðunum. Við leitina fannst verksmiðjan þar sem framleiðslan fór fram. Eins og áður segir voru sextán manns handteknir í tengslum við málið og talið er að höfuðpaur hópsins sé meðal þeirra sem voru handteknir.

Átti að selja í Bretlandi og Þýskalandi

Lagt var hald á rúmlega 1,6 milljónir sígaretta auk þrettán tonna af tóbaki sem hefði dugað til framleiðslu á þrettán milljónum sígaretta til viðbótar. Talið er að ríkissjóður Póllands verði af um 3,8 milljörðum evra í skatta vegna framleiðslunnar, eða um sex hundruð milljónum króna.

Talið er að framleiðslugeta verksmiðjunnar hafi verið um ein milljón sígaretta á  dag. Þá stefndu glæpamennirnir að því að selja sígaretturnar að mestu leyti í Bretlandi og Þýskalandi. Virði þeirra í sölu hefði þá verið allt að 9,7 milljónum evra eða um einn og hálfur milljarður króna.  

mbl.is