Leika sér með „tímasprengju“

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, flytur ávarp 29. september.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, flytur ávarp 29. september. AFP

Norður-Kóreumenn gagnrýndu öryggisráð Sameinuðu þjóðana harðlega fyrir að halda neyðarfund vegna nýjustu eldflaugatilraunar landsins.

Þeir segja aðildarríki SÞ vera að leika sér með „tímasprengju” með fundarhöldunum.

Á föstudaginn sögðust norðurkóresk stjórnvöld hafa skotið hljóðfrárri eldflaug á loft og að allt hafi heppnast eins og í sögu.

Í september sögðust þau jafnframt hafa skotið á loft langdrægri eldflaug.

Öryggisráðið brást við með því að halda neyðarfund á föstudag og voru það Bandaríkin, Bretland og Frakklandi sem óskuðu eftir honum. Hann stóð yfir í rúma klukkustund og engin yfirlýsing var gefin út að honum loknum.

„Með því að krefjast þess að við látum af hendi rétt okkar til þess að verja okkur lýsir áformum um að viðurkenna ekki Norður-Kóreu sem fullvalda ríki,” sagði Jo Chol Su, yfirmaður alþjóðlegra stofnana hjá utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu.

„Ég hef mikla áhyggjur yfir því að UNSC [öryggisráð Sameinuðu þjóðanna] hafi leikið sér í þetta sinn að hættulegri tímasprengju,” bætti hann við.  

mbl.is