Áhrifavaldur hjálpaði 565 Afgönum að flýja

Þegar áhrifavaldurinn á Instagram og fyrrverandi hermaðurinn Tommy Marcus las í fréttum að Kabúl, höfuðborg Afganistans, hefði fallið í hendur talíbana sat hann ekki með hendur í skauti.

Á þremur dögum tókst honum að safna 7,2 milljónum bandaríkjadala, sem samsvarar tæplega 940 milljónum íslenskra króna. Peninginn nýtti hann til þess að aðstoða afganska ríkisborgara við að flýja land.

„Ég man að ég varð hræddur og að mér ofbauð þetta ástand og ég hreinlega vildi bara hjálpa til,“ segir Marcus. Hann er eins og áður segir þekktur á Instagram en þar gengur hann undir nafninu „Quentin Quarantino“.

Í krafti fjöldans

Hann stóð þó ekki einn að söfnuninni en aðrir fyrrverandi hermenn, auk lögfræðinga og fyrrverandi diplómata veittu honum liðsinni í verkefninu.

Kraftur samfélagsmiðla, snögg hópfjáröflun og reynsla fyrrverandi hermanna gerðu það að verkum að hægt var að bjarga 565 afgönskum ríkisborgurum.

Tommy setti inn skilaboð á Instagram-reikninginn sinn eftir að myndskeið birtust af örvæntingarfullum Afgönum að hanga utan í flugvél sem var að taka á loft. Skilaboð Marcus voru einföld, hann vildi hjálpa en vissi ekki hvernig hann gæti það.

Svörin létu ekki standa á sér en á nokkrum mínútum hlupu þau á þúsundum. Í kjölfarið bað Marcus fylgjendur sína að hjálpa sér að safna að minnsta kosti hálfri milljón bandaríkjadala, eða 65 milljónum króna. Það tókst heldur betur en fyrsta daginn komu inn fimm milljónir bandaríkjadala og eftir þrjá daga söfnuðust, eins og áður segir, rúmlega sjö milljónir dollara.

Heilt yfir lögðu rúmlega 120 þúsund manns pening til verkefnisins. Að meðaltali söfnuðust átta þúsund krónur á mann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert