60 smit eftir gleðskap í Ósló – 17 talin Ómíkron

Gleðskapurinn var haldinn á þessum veitingastað, Louise Restaurant & Bar …
Gleðskapurinn var haldinn á þessum veitingastað, Louise Restaurant & Bar á Aker Brygge í Ósló í Noregi. AFP

Að minnsta kosti 17 manns sem mættu í ríflega 100 manna jólagleðskap í Ósló eru taldir smitaðir af Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar. 64 manns hafa greinst með smit eftir veisluna, 60 í PCR-prófum og fjórir í Antigen-prófum, sem eru ekki talin eins áreiðanleg og PCR-prófin. 

Þá er talið líklegt að enn fleiri smitanna séu af Ómíkron-afbrigði veirunnar en nú er unnið að raðgreiningu smita.

„17 smitanna eru líklega Ómíkron en það hefur ekki verið staðfest. Eitt tilvik er staðfest Ómíkron,“ sagði í tilkynningu frá heilbrigðisyfirvöldum í Ósló.

Höfðu öll verið bólusett og tekið sjálfspróf

100 til 120 manns, sem allir voru fullbólusettir, voru í gleðskapnum sem haldinn var á föstudag. Einn gestanna var nýkominn frá Suður-Afríku, en þar greindist umrætt afbrigði veirunnar fyrst. Um var að ræða vinnustaðarpartý.

„Allt fólkið hafði verið bólusett, enginn var með einkenni og höfðu þau öll framkvæmt sjálfspróf áður en þau mættu,“ sagði Tine Ravlo, umdæmislæknir sóttvarna í Ósló.

Allt fór fram eftir gildandi takmörkunum og voru engar reglur brotnar,“ sagði Ravlo.

Öll hin smituðu hafa einungis upplifað væg einkenni Covid-19, til dæmis höfuðverki, hálsbólgu og hósta.

mbl.is