Danir slaka á aðgerðum á landamærum

Fullbólusettir einstaklingar geta nú ferðast til Danmerkur án þess að …
Fullbólusettir einstaklingar geta nú ferðast til Danmerkur án þess að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr hrað- eða PCR-prófi, óháð hvaðan þeir koma. AFP

Bólusettir einstaklingar geta nú ferðast til Danmerkur án þess að þurfa að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr skimun eða sæta sóttkví, óháð því hvaðan þeir eru að ferðast. Sama gildir um þá sem ferðast með skemmtiferðaskipum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá danska heilbrigðisráðuneytinu. 

Danmörk mun nú taka öll bóluefni gild sem koma fram á lista Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Þannig viðurkenna þeir nú fjögur bóluefni til viðbótar við þau sem hafa fengið evrópskt markaðsleyfi. Bóluefnin sem bætast við eru Covishield, Covaxin, Sinovac og Sinopharm.

Afléttingar taka gildi 1. febrúar

Afléttingarnar taka gildi á miðnætti. Frá og með fyrsta febrúar verða reglurnar á landamærum Danmerkur því eftirfarandi:

Landamærin eru opin öllum fullbólusettum ferðamönnum, óháð búsetu og þurfa þeir ekki að sæta sóttkví við komu eða framvísa neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi eða PCR-prófi. 

Ríkisborgarar innan Evrópska efnahagssvæðisins geta ferðast til Danmerkur þrátt fyrir að vera óbólusettir, en þeir þurfa þá að fara í skimun innan 24 klukkustunda frá komu. Nema þeir framvísi neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi eða PCR-prófi.

Óbólusettir einstaklingar utan EES-svæðisins þurfa að vera meðvitaðir um hvort þeir séu að koma frá skilgreindu áhættusvæði eða ekki. Þeir sem koma frá áhættusvæðum þurfa að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr prófi og sæta sóttkví við komu. Aðrir þurfa aðeins að framvísa neikvæðu hraðprófi eða PCR-prófi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert