Samþykktu bann við auglýsingu tóbaksvara

Talið er að tóbaksiðnaðurinn skili yfir sex milljörðum bandarískra dollara …
Talið er að tóbaksiðnaðurinn skili yfir sex milljörðum bandarískra dollara á ári og um 11.000 störfum til svissneska hagkerfisins. AFP

Svissneskir kjósendur samþykktu bann við auglýsingum á tóbaksvörum í dag.

BBC greinir frá.

Þessi niðurstaða færir Sviss nær löggjöfum margra annarra evrópskra ríkja sem tóku flest upp strangar reglur um tóbaksauglýsingar fyrir mörgum árum.

Áður reynt að takmarka auglýsingar

Fyrir tæplega 20 árum skrifaði Sviss undir rammasamning Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um tóbaksvarnir.

Ríkið hefur þó ekki enn fullgilt samninginn og er eina landið í Evrópu sem hefur ekki gert það. Ástæðan er að löggjöf landsins um auglýsingar á tóbaksvörum hefur ekki verið í samræmi við samninginn.

Oft hefur verið reynt að koma á einhvers konar takmörkunum á auglýsingu tóbaksvara en þær hafa alltaf verið felldar af þinginu. 

Sögðu sykur og áfengi næst

Philip Morris, British American Tobacco og Japan Tobacco, sem eru nokkur af helstu tóbaksfyrirtækjum heims, eru með höfuðstöðvar sínar í Sviss.

Nokkrum dögum fyrir atkvæðagreiðsluna varð ljóst að tóbaksfyrirtækin hefðu fjármagnað herferð gegn banninu.

Herferð þeirra hélt því fram að bann við því að auglýsa löglegar vörur myndi opna dyrnar fyrir takmarkanir á öðrum hlutum, eins og sykri eða áfengi, þar sem það er einnig heilsuspillandi.

Talið er að tóbaksiðnaðurinn skili yfir sex milljörðum bandarískra dollara á ári og um 11.000 störfum til svissneska hagkerfisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert