Olía flæðir frá rúmlega 30 ríkjum

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AFP/ROBERTO SCHMIDT

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segir að rúmlega 30 ríki hafi ákveðið að taka þátt í því með Bandaríkjunum að losa olíu út á markaði í þeim tilgangi að reyna að koma á jafnvægi á orkumörkuðum heims í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Um er að ræða olíu úr olíuforða ríkjanna. 

Biden greindi frá þessu í ávarpi í Hvíta húsinu í Washington í dag. Um er að ræða fleiri tugi milljóna tunna sem bætast við ákvörðun Bandaríkjastjórnar, en Biden greindi frá í gær að bandarísk stjórnvöld hygðust losa um 180 milljónir tunna af olíu út á markaði á komandi sex mánuðum. 

Aðgerðinni, sem er sú umfangsmesta af þessu tagi í sögunni, er ætlað að hafa kælandi áhrif á olíumarkaðinn á heimsvísu og draga úr því höggi sem bandaríska hagkerfið hefur orðið fyrir vegna stríðsátakanna. 

Biden sagði að almenningur í Bandaríkjunum hefði fundið fyrir síhækkandi eldsneytiskostnaði vegna hækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu sem væri afleiðing innrásarinnar og viðbragða Vesturveldanna sem hafa beitt Rússa mjög hörðum efnahagsþvingunum. Rússar eru næst stærsti útflytjandi hráolíu í heiminum á eftir Sádi-Arabíu. 

Fram kemur í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar að verð á olíu hafi náð jafnvægi í dag en verðið nemur tæpum 100 dollurum á tunnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert