Petró Porosj­en­kó bannað að yfirgefa Úkraínu

Petro Poroshenko, fyrrum forseti Úkraínu.
Petro Poroshenko, fyrrum forseti Úkraínu. EPA

Að sögn Petró Porosj­en­kó, fyrrverandi forseta Úkraínu, hefur honum verið bannað að yfirgefa Úkraínu. Sakar hann ríkisstjórn forseta Úkraínu Volodimír Selenskí um að brjóta samkomulag um svokallað pólitískt vopnahlé.

Porosj­en­kó var forseti Úkraínu á undan Selenskí frá 2014 til 2019 og er í forustu fyrir næst stærsta flokkinn í Úkraínu. Hann hefur komið margoft opinberlega fram í sjónvarpi í Úkraínu síðan að innrás Rússlands hófst. 

Eftir að stríðið hófst í Úkraínu bannaði úkraínska þingið nokkra flokka sem voru hliðhollir Rússlandi en gerðu samkomulag við aðra flokka um að vinna saman í svokölluðu pólitísku vopnahléi með sameiginlegan skilning um að setja allar deilur innanlands á ís til að geta sameinast gegn innrás Rússlands. 

Í dag tilkynnti skrifstofa Porosj­en­kó að honum hafi verið meinað að fara yfir landamærin úr Úkraínu. Að sögn Porosj­en­kó er þetta brot á fyrrgreindu samkomulagi. Porosj­en­kó var þá á leiðinni til Litháen til að sækja þar fund með ýmsum evrópskum þingmönnum innan Atlantshafsbandalagsins (NATO) og hafði fyrir það fengið leyfi til að ferðast.

Í tilkynningu skrifstofu Porosj­en­kó kemur fram að þessi ákvörðun ögri samhug og samheldni úkraínsku þjóðarinnar í stríðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert