Ignatova sett á topp 10 lista FBI

Ruja Ignatova og Ásdís Rán í janúar 2016.
Ruja Ignatova og Ásdís Rán í janúar 2016. Ljósmynd/Facebook

Ruja Ignatova, stofnandi rafmyntarinnar OneCoin, er komin á topp tíu lista bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) yfir eftirsóttustu glæpamenn heims. Íslenska athafnakonan Ásdís Rán Gunnarsdóttir og Ignatova voru góðar vinkonur áður en sú síðarnefnda lét sig hverfa árið 2017.

Þá hafði Ignatova, sem er einnig þekkt sem rafmyntadrottningin, þremur árum fyrr fengið margt fólk til þess að fjárfesta í myntinni, sem reyndist svo aldrei hafa verið til. Hún er grunuð um að hafa svikið kaupendurna um rúma fjóra milljarða dollara, eða það sem nemur um 650 milljörðum íslenskra króna.

Ignatova er eina konan á listanum. Handtökuskipan var gefin út á hendur henni árið 2017 en hún var tveimur árum síðar kærð fyrir átta brot í tengslum við söluna á OneCoin.

Hvarf viku eftir að Ásdís fór heim

Ásdís Rán ræddi við Smartland um hvarf Ignatovu árið 2019.

„Ég var hjá henni í tvo mánuði, áður en hún hvarf. Við vor­um í Búlgaríu á sól­ar­ný­lendu. Ég var þarna með krakk­ana mína og viku eft­ir að ég kem heim hverf­ur hún,“ sagði Ásdís Rán. 

Held­ur þú að hún hafi verið myrt?

„Ég hef oft velt þessu fyr­ir mér. Hún var orðin rosa­lega rík á þess­um tíma. Hún var með líf­varðastóð og ferðaðist um í skot­held­um bíl­um. Mér finnst ólík­legt að hún hafi verið myrt. Á sama tíma finnst mér líka skrýtið að ég hafi aldrei heyrt í henni ef hún er á lífi því við töluðum sam­an á hverj­um degi í tíu ár.

Fyrst hélt ég að hún hefði verið lát­in hverfa, en mig grun­ar að hún sé í fel­um. Það fór fram skatt­a­rann­sókn í mörg­um lönd­um og fólki er oft haldið í fang­elsi á meðan verið að rann­saka það. Ég held að það sé mögu­leg ástæða fyr­ir því að hún hafi horfið,“ sagði Ásdís við Smartland árið 2019. 

BBC fjallar ítarlega um málið á vefsíðu sinni.

mbl.is