Ákærður fyrir landráð gegn drottningunni

Drottningin dvaldi í Windsor-kastala.
Drottningin dvaldi í Windsor-kastala. AFP

Lögreglan í Bretlandi ákærði í dag mann fyrir að hafa ógnað öryggi drottningarinnar þegar hann gekk um landareign Windsor-kastala vopnaður lásboga á jóladag á síðasta ári.

Elísabet II. Bretadrottning dvaldi í kastalanum á þeim tíma og hefur lögreglan ákveðið að fara í málinu eftir lögum um landráð, sem sett voru árið 1842.

Leiddur fyrir dómara síðar í mánuðinum

Maðurinn, sem er 20 ára og er frá borginni Southampton í Englandi, heitir Jaswant Singh Chail og var handtekinn á jóladag eftir að hafa brotist inn í garðinn.

Hann var í dag ákærður fyrir landráð eins og áður sagði, og fyrir ógn gegn mannslífi og brot gegn vopnalögum þar í landi.

Hryðjuverkadeild lögreglunnar í Lundúnum hefur verið með málið til rannsóknar síðan á jóladag og hefur nú lokið rannsókn sinni. Mun Chail sem hefur verið í haldi lögreglu frá því um jólin verða leiddur fyrir dómara þann sautjánda ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka