Hugðist sviðsetja andlát sitt

Sharaban K., vinstra megin, valdi fórnarlamb sitt á grundvelli þess …
Sharaban K., vinstra megin, valdi fórnarlamb sitt á grundvelli þess svips sem var með þeim og bar fjölskylda grunuðu ranglega kennsl á sundurstungið og afmyndað líkið sem hana, en síðar kom í ljós að hin látna var alsírski bloggarinn Khadidja O. Samsett ljósmynd/Úr einkasafni

Saksóknarar í München í Þýskalandi telja að 23 ára gömul þýsk-írösk kona hafi sett eigið andlát á svið með því að myrða jafnöldru sína, alsírskan bloggritara sem skrifaði um útlit og fegurð á bloggsíðu sína og var búsett í Heilbronn í Baden-Württemberg.

Grunaða, sem þýskir fjölmiðlar nefna fornafni og fyrsta staf eftirnafns svo sem þar er siður í sakamálum, snyrtifræðingurinn Sharaban K., valdi fórnarlambið, Khadidja O., af samfélagsmiðlinum Instagram með útlit í huga en konurnar voru svo líkar útlits að þegar alblóðugt lík bloggarans fannst í Mercedes Benz-bifreið í Ingolstadt í ágúst í fyrra staðfesti fjölskylda grunuðu að þar væri lík hennar komið.

Hafði samband við fleiri konur

Hafði Khadidja O. verið stungin fimmtíu sinnum og komst lögregla fljótlega á snoðir um að grunaða, undir ýmsum nöfnum, hefði sett sig í samband við fleiri konur með svipað útlit á nokkrum samfélagsmiðlum og gert tilraunir til að fá að hitta þær undir mismunandi yfirskini sem aldrei hafi þó borið árangur.

Hefur rannsókn lögreglu leitt í ljós, eftir því sem dagblaðið Süddeutsche Zeitung greinir frá, að Khadidja O. hafi fallist á fund með grunuðu í kjölfar snyrtivörutilboðs frá þeirri síðarnefndu. Grunaða hafi þá sótt hana á bifreið í félagi við Sheqir K, 23 ára gamlan mann frá Kósovó, og þau svo ráðið fórnarlambi sínu bana í skóglendi milli Heilbronn og Ingolstadt.

Var fólkið handtekið nú í janúar eftir nokkurra mánaða lögreglurannsókn en að sögn Veroniku Grieser, saksóknara í Ingolstadt, gengur ákæruvaldið út frá því að Sharaban K. hafi ætlað sér að setja eigið andlát á svið og láta sig svo hverfa í kjölfar deilna í fjölskyldunni.

„Mál á borð við þetta eru ekki daglegt brauð,“ segir Andreas Aichele, talsmaður lögreglunnar, í samtali við dagblaðið Bild, „daginn sem líkið fannst benti ekkert til þess hver framvinda málsins ætti eftir að verða.“

Süddeutsche Zeitung

The Guardian

Insider

mbl.is