Kveðja frídaginn 130 árum á eftir Íslandi

Tillaga Mette Frederiksen um afnám kóngsbænadags var samþykkt á danska …
Tillaga Mette Frederiksen um afnám kóngsbænadags var samþykkt á danska þinginu með 95 atkvæðum. AFP

Kóngsbænadagurinn eða stórbeðudagur verður ekki lengur almennur frídagur í Danmörku. Tillaga forsætisráðherra um afnám dagsins var samþykkt á danska þinginu á mánudaginn með 95 atkvæðum en 68 greiddu atkvæði gegn henni. Danir fá þó að fagna deginum í eitt hinsta sinn en hann verður formlega aflagður 2024. 

Dagurinn er fjórði föstudaginn eftir páska og er upprunalega í kristilegum tilgangi, eins og nafnið gefur til kynna, og var borgurum á árum áður gert að láta af störfum og ganga til messu.

Í dag tíðkast einna helst að gæða sér á heitum kardimommubollum og fá sér lystigöngu til að fagna vorinu, enda fæstir mótfallnir almennum frídegi frá vinnu hvaða trú sem þeir kunna að aðhyllast.  

Dagurinn afnuminn til að auka framlög til hersins

Mette Frederiksen forsætisráðherra lagði fram tillögu fyrir danska þingið í janúar á þessu ári um að afnema frídaginn í því skyni að auka fjárframlög til hersins.

Aukið fjármagn til danska hersins eru partur af nýrri varnarmálastefnu ríkistjórnarinnar, í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Tillagan hefur verið gagnrýnd harðlega af stjórnarandstöðunni, almenningi, verkalýðsfélögum og dönsku þjóðkirkjunni.  

Danska ríkisstjórnin telur að með því að leggja daginn niður muni danska þjóðin vinna 7,4 tíma til viðbótar á ári hverju. Áætlað er að skattar af þeim tekjum sem ávinnast á viðbættum vinnudegi nemi um 3 milljarða danskra króna eða um 61 milljarða íslenskra króna, sem muni skili sér í ríkiskassann.  

Þess má geta að dagurinn var afnuminn sem helgidagur á Íslandi árið 1893 með lögum þar að lútandi.

mbl.is