Ákærð fyrir að hafa myrt fanga

Irvo Otieno var 28 ára gamall.
Irvo Otieno var 28 ára gamall. Samsett mynd

Sjö starfsmenn löggæslu og þrír sjúkrahússtarfsmenn í Virginíuríki í Bandaríkjunum hafa verið ákærðir fyrir morðið á hinum 28 ára Irvo Otieno. Bráðabirgða krufningarskýrsla leiddi í ljós að Otieno kafnaði til dauða í kjölfar þess að honum var haldið niðri í járnum í um ellefu mínútur.

Otieno lá undir grun um innbrot og var þess vegna í haldi lögreglu. Verið var að flytja hann úr fangageymslu og á geðdeild sjúkrahúss á svæðinu þar sem andlegt ástand hans hafði verið metið sem svo að hann gæti verið hættulegur sjálfum sér og öðrum.

BBC greinir frá.

Tíu ákærðir

Atvikið örlagaríka má sjá á myndbandi úr öryggiskerfi sjúkrahússins. Þar sést fjöldi manna leggjast ofan á Otieno til þess að halda honum niðri. Þá á Otieno að hafa verið veitt skyndihjálp þegar tekið var eftir því að hann var meðvitundarlaus.

Þau tíu sem áttu þátt í málinu hafa nú öll verið ákærð fyrir morð Otieno. Lögreglumennirnir sjö hafa verið sendir í leyfi frá störfum. Fimm eru enn í haldi lögreglu og tveir lausir gegn tryggingu. Starfsmenn sjúkrahússins hafa allir verið fluttir í fangelsi og eiga ekki möguleika á því að vera látnir lausir gegn tryggingu.

mbl.is