Blaðamaður handtekinn af Rússum fyrir njósnir

Evan Gershkovich, blaðamaður The Wall Street Journal, var handtekinn fyrir …
Evan Gershkovich, blaðamaður The Wall Street Journal, var handtekinn fyrir njósnir í Rússlandi. AFP

Blaðamaður The Wall Street Journal, Evan Gershkovich, hefur verið handtekin fyrir njósnir samkvæmt æðstu öryggisstofnun Rússlands, FSB. 

Samkvæmt FSB, var Gershkovich handsamaður í Jekaterínburg fyrir að reyna að afla leynilegra upplýsinga um starfsemi rússneska hernaðariðnaðarins undir fyrirskipun bandarískra yfirvalda. Hann á yfir höfði sér 20 ára fangelsisdóm.

„Ekki fyrsti Vesturlandabúinn sem er gripinn glóðvolgur

María Sakharóva, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, segir yfirvöld hafa gripið Gershkovich glóðvolgan. Hún sagði þetta ekki í fyrsta sinn sem erlendur blaðamaður hafi nýtt stöðu sína sem fjölmiðlamaður til að hylma yfir starfsemi sem er ekki blaðamennska. „Þetta er ekki fyrsti Vesturlandabúinn sem er gripinn glóðvolgur,“ sagði Sakharóva í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum.  

The Wall Street Journal segja í yfirlýsingu að þau hafi miklar áhyggjur af öryggi Gershkovich. 

Gershkovich er fréttaritari á skrifstofu Wall Street Journal í Moskvu og hefur hann mikið fjallað um Rússland og Úkraínu. 

Nýjasta frétt hans frá Moskvu, sem gefin var út fyrr í vikunni, beindist að hægagangi rússneska hagkerfisins í kjölfar refsiaðgerða vestrænna landa í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu.

mbl.is