Um 25 friðargæsluliðar NATO særðust

Serbar mótmæltu nýkjörnum borgarstjórum af albönskum uppruna í Kósovo í …
Serbar mótmæltu nýkjörnum borgarstjórum af albönskum uppruna í Kósovo í dag. AFP

Um 25 friðargæsluliðar á vegum Atlants­hafs­banda­lags­ins (NATO) særðust í norðurhluta Kósovó í dag þegar þeir lentu í átökum við serbneska mótmælendur sem kröfðust þess að nýkjörnir bæjarstjórar af albönskum uppruna yrðu fjarlægðir úr embætti.

Kósovó lýsti einhliða yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008. Serbar í Kósovó, sérstaklega í norðri, hafa hafnað sjálfstæði Kósovó frá Serbíu. Það hafa þeir gert meðal annars með því að taka ekki þátt í kosningum en í nýliðnum sveitastjórnarkosningum var kjörsókn í sumum bæjum í norðurhluta landsins undir 3,5%.

Þar sem kosningaþátttaka var ekki mikil náðu Albanir stjórn á sveitarstjórnum. Því mótmæltu Serbarnir í dag.

Óafsakanlegt að mati NATO

NATO hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins, en í henni segir að friðargæsluliðar hafi orðið fyrir „tilefnislausum árásum“. 

Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að bandalagið telji árásirnar óafsakanlegar en að friðargæsluliðar muni halda áfram að sinna störfum sínum. 

mbl.is