Erfðaskrá Prígósjín birt

Minningarreitur um málaliðaforingjann fallna í miðborg Moskvu.
Minningarreitur um málaliðaforingjann fallna í miðborg Moskvu. AFP/Natalia Kolesnikova

Eins og títt var með ættarveldi fyrri tíma munu veraldlegar eigur Jevgení Prígosjín, fyrr­ver­andi leiðtoga Wagner-hóps­ins, ganga til elsta sonarins, hins 25 ára gamla Pavels.

Prígosjín gekk frá erfðaskrá sinni í mars síðastliðnum og hefur henni nú verið deilt í mörgum hópum á Telegram.

Útistandandi skuldir

Rannsóknarblaðamenn sem rýnt hafa í gögnin meta auðæfi Prígosjíns heitins á tæpa 17 milljarða króna.

Raunar gæti arfurinn verið mun umfangsmeiri sé tekið tillit til útistandandi skulda. Prígosjín var verktaki hjá varnarmálaráðuneyti Rússlands, og er ætlað að ráðuneytið hafi skuldað honum um 115 milljarða króna. Það fellur því í skaut Pavels að innheimta þá skuld.

Tryggi áhyggjulaust ævikvöld

Erfðaskráin er þó lítillega flóknari því að í henni eru nokkur ákvæði. Meðal annars er Pavel skuldbundinn að tryggja móður sinni og systrum sómasamlegt framfæri.

Samkvæmt La Repubblica mun Pavel erfa einbýlishús í Pétursborg og fjölda fyrirtækja. Þeirra þekktast er Concord Management and Consulting, sem er fyrirtækið sem tryggði Prígosjín aðgang að innsta valdakjarna Kremlar og sá um viðburðastjórnun og veitingar fyrir hið opinbera, þar á meðal varnarmálaráðuneyti Rússlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert