Ísland sendir ekki viðkvæma til Ítalíu

Fyrsta viðkoma margs flóttafólks í Evrópu er á ítölsku eyjunni …
Fyrsta viðkoma margs flóttafólks í Evrópu er á ítölsku eyjunni Lampedusa. AFP

Einstaklingar sem leita hælis á Íslandi og eru metnir í sérstaklega viðkvæmri stöðu verða ekki sendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar að svo stöddu, vegna ástands mála þar.

Innanríkisráðuneytið hefur ákveðið þetta, þótt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi enn ekki lýst því formlega yfir að aðstæður hælisleitenda þar geti almennt brotið gegn 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um bann við pyndingum eða ómannúðlegri meðferð.

Afstaða annarra Norðurlanda er einnig enn sú að hælisleitendur skuli almennt endursendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Ísland gengur því lengra með sinni ákvörðun. Í október 2010 voru endursendingar til Grikklands stöðvaðar alfarið og er sú ákvörðun enn í gildi.

Þessi tvö lönd eru meðal þeirra sem hvað flestir flóttamenn koma fyrstir inn í á leið til Evrópu.

Alvarlegar athugasemdir hafa komið fram

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu hefur undanfarið verið aflað gagna og kannað ástand hælismála, meðferð hælisumsókna og aðstæður hælisleitenda á Ítalíu. Upplýsinga voru m.a. fengnar frá stofnunum SÞ, Evrópuráðsins og frá öðrum Norðurlöndum. Þá hefur ráðuneytið einnig kannað dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um endursendingar hælisleitenda.

Í byrjun febrúar óskaði ráðuneytið eftir umsögn Flóttamannastofnunar um ástandið á Ítalíu og ráðleggingum um endursendingar hælisleitenda þangað. Þann 14. mars 2014 bárust þau svör frá stofnuninni að nýjustu skýrslur þeirra varðandi Ítalíu ættu enn við.

Flóttamannastofnun SÞ er þannig ekki tilbúin til þess að lýsa því yfir að endursendingar til Ítalíu og aðstæður þar geti brotið gegn 3 gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Stofnunin er heldur ekki tilbúin til að leggjast opinberlega gegn slíkum endursendingum.

Samkvæmt innanríkisráðuneytinu hafa hins vegar komið fram alvarlegar athugasemdir varðandi aðstæður og þjónustu í þessum ríkjum, sérstaklega hvað varðar einstaklinga sem teljast vera í viðkvæmri stöðu.

Möguleg brot á mannréttindasáttmálanum

Í apríl á þessu ári tók Mannréttindadómstóllinn ákvörðun í máli Mohammed Hussein gegn Hollandi og Ítalíu, þar sem einstæð móðir frá Sómalíu með tvö ung börn var send aftur til Ítalíu. Dómstóllinn taldi endursendinguna ekki brjóta gegn mannréttindasáttmálanum og verður ráðið af dóminum að ekki sé almennt ástæða til að ætla að þeir sem eru endursendir til Ítalíu verði sendir áfram til þriðja ríkis, þar sem hætta er á að þeir sæti meðferð sem brjóti gegn 3 gr. sáttmálans. Aðrar ákvarðanir dómstólsins hafa einnig stutt þetta, að sögn innanríkisráðuneytisins. 

Nú er hins vegar til meðferðar fyrir Mannréttindadómstól Evrópu annað mál, Tarakhel gegn Sviss, þar sem skera á úr um það hvort heimilt sé að senda afganska fjölskyldu til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Byggist málatilbúnaður þeirra á því að erfitt verði fyrir fjölskylduna að snúa aftur, í ljósi sérstaklega viðkvæmrar stöðu sem þau teljist vera í, en um er að ræða hjón með 5 börn. Þar muni bíða þeirra aðstæður sem brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmálans. Gera má ráð fyrir að dómurinn verði fordæmisgefandi.

Þá hefur sjö málum gegn Danmörku verið beint til Mannréttindadómstólsins, vegna væntanlegs flutnings fjölskyldna til Ítalíu á grundelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Dómstóllinn hefur óskað eftir því að framkvæmd þeirra ákvarðanna verði frestað. Í öllum tilvikunum er um að ræða fjölskyldur með ung börn.

Má þar m.a. nefna mál sýrlenskrar móður og þriggja barna hennar, sem komu sjóleiðina til Evrópu í október 2013. Við komuna til Ítalíu voru þau tekin höndum, skráð inn sem flóttamenn og hneppt í varðhald í þrjá daga. Þeim var svo sleppt, án þess að fá neinar upplýsingar um hvernig þau gætu sótt um hæli og hvar þau gætu dvalið á meðan. Konan lagði af stað norður eftir Evrópu og kom til Danmerkur í desember. Danir ætluðu að senda þau til baka, en Mannréttindadómstóllinn gaf tilmæli um að þeirri ákvörðun yrði frestað á meðan málið er skoðað.

Í ljósi þessara tilmæla er ekki ólíklegt að afstaða Mannréttindadómstólsins til endursendinga til Ítalíu muni breytast. Enn sem komið er er þó afstaða Norðurlandanna sú að hælisleitendur skuli almennt endursendir til Ítalíu.

Ísland beri ábyrgðina

Innanríkisráðuneytið hyggst áfram skoða hvert tilvik fyrir sig og meta aðstæður hver hælisleitanda áður en ákvörðun um endursendingu er tekin. Þá þarf jafnframt að kanna hvort hætta sé á því að hælisleitandinn verði áframsendur til þriðja ríkis, þar sem hætt er við því að hann sæti illri meðferð.

Verði tali varhugavert að endursenda viðkomandi verður undanþágu beitt, þannig að Ísland beri ábyrgð á meðferð hælisumsóknarinnar.

Þar til niðurstaða liggur fyrir hjá Mannréttindadómstól Evrópu telur innanríkisráðuneytið rétt að miða við að einstaklingar sem geta talist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, svo sem ef um er að ræða sjúka einstaklinga eða barnafjölskyldur, verði ekki sendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka