„Með umfangsmeiri rannsóknum sem við höfum verið í“

Húsið í Vík í Mýrdal þar sem maðurinn á að …
Húsið í Vík í Mýrdal þar sem maðurinn á að hafa haldið konunum tveimur í kjallara.

Á annan tug manna hafa verið yfirheyrðir í tengslum við rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á mansali í Vík. Standa yfirheyrslur enn yfir sem og gagnavinnsla í málinu. Gera má ráð fyrir að öllu óbreyttu að tæplega 20 einstaklingar verði yfirheyrðir áður en rannsókn lýkur. Þetta segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti lögreglunnar á Suðurlandi, í samtali við mbl.is

4-5 lögreglumenn vinna að málinu 

Um miðjan febrúar var maður handtekinn í Vík vegna gruns um mansal. Er hann talinn hafa haldið tveimur konum með erlent ríkisfang í vinnuþrælkun í húsnæði sínu í Vík. Var maðurinn úrskurðaður í hálfs mánaðar gæsluvarðhald sem lauk síðasta föstudag. Var hann þá úrskurður á ný í gæsluvarðhald, í þetta skiptið í einn mánuð. Var úrskurðurinn kærður af hálfu þess sem var handtekinn, en Þorgrímur segir að vænta megi niðurstöðu Hæstaréttar í þessari viku.

Þorgrímur segir að gríðarleg vinna sé í kringum málið. „Þetta er með umfangsmeiri rannsóknum sem við höfum verið í,“ segir hann og á þar við lögreglustjóraembættið á Suðurlandi. Nefnir hann að 4-5 lögreglumenn komi að rannsókn málsins öllum stundum og í heild hafi 23 lögreglumenn komið að málinu. Er þá talin með aðstoð mansalshóps lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og fjármunabrotadeildar lögreglunnar.

Vík í Mýrdal.
Vík í Mýrdal. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Önnur mál hafa verið lögð til hliðar

Þá segir Þorgrímur að í tengslum við málið hafi þurft að aka langar vegalengdir og samtals séu um 15 þúsund kílómetrar skráðir á málið. Það eru rúmlega 11 hringir á Hringveginum.

Segir Þorgrímur að vegna umfangs málsins hafi þurf að leggja fjölda annarra mála til hliðar. Í þessu máli sé gífurlega mikil pappírsvinna og þá sé tímaramminn þröngur m.a. í tengslum við dómsúrskurði og gæsluvarðhaldsmál. Mikið púður hafi því farið í að klára málið sem fyrst.

Voru yfirheyrðar fyrir dómi

Í viðtali mbl.is við Snorra Birgisson, rannsóknarlögreglumann hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og sérfræðing í rannsóknum mansalsmála kom fram að í mörgum tilfellum í mansalsmálum vildu þolendur komast sem fyrst brott af landi ef þeir voru erlendir ríkisborgarar. Aðspurður hvort konurnar tvær í þessu máli hafi haldið af landi brott segir Þorgrímur að síðast þegar hann vissi væru þær enn hér á landi. Félagsmálayfirvöld Rangárvallasýslu og Skaftársýslu tryggðu að þær hefðu í sig og á.

Í þeim tilfellum sem brotaþolar fara af landi brott getur reynst erfitt að sanna sök í mansalsmálum. Þorgrímur segir að ákæruvaldið hafi tryggt sig fyrir þessu með að yfirheyra konurnar tvær fyrir dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert