Áfram tekist á um dómara í Stím-máli

Frá aðalmeðferð Stím-málsins í héraðsdómi í lok árs 2015. Málið …
Frá aðalmeðferð Stím-málsins í héraðsdómi í lok árs 2015. Málið er nú aftur komið í hérað eftir að hafa verið ógilt í Hæstarétti fyrr í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur hafnaði í dag kröfu verjenda í Stím-málinu svokallaða um að Hrefna Sigríður Briem, sérfróður meðdómari í málinu  myndi víkja. Áður hafði Hæstiréttur hafnað kröfu um að dómsformaðurinn Símon Sigvaldason myndi víkja. Verjendur hinna þriggja ákærðu í málinu gáfu allir upp að þeir myndu kæra úrskurðinn í dag til Hæstaréttar.

Í Stím-málinu er tekist á um 20 milljarða króna lán sem Glitnir veitti til félagsins Stím til kaupa á hlutabréfum í Glitni og FL Group, en FL var á þessum tíma stærsti hluthafi Glitnis. Héraðsdómur dæmdi alla ákærðu í fangelsi í desember 2015 og var um að ræða 18 mánaða til 5 ára fangelsi. Hæstiréttur ómerki dóminn hins vegar í sumar og vísaði honum til héraðsdóms að nýju. Sagði í dómi Hæstaréttar að Sig­ríði Hjaltested, dóm­ara í mál­inu, hafi brostið hæfi til að dæma í mál­inu. Sig­ríður sagði sig frá öðru hrun­máli sem Hæstirétt­ur seg­ir hliðstætt þessu máli. Það gerði hún vegna tengsla þess við fyrr­ver­andi eig­in­mann sinn og barns­föður.

Krafan um vanhæfi Hrefnu var sett fram af Óttari Pálssyni, verjanda Lárusar Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, og er hún þrískipt.

Í fyrsta lagi vísar hann til þess að það fyrirkomulag sem viðhaft sé á kvaðningu sérfróðra meðdómara uppfylli ekki stjórnarskrárákvæði og lög um sjálfstæði dómara og stöðu þeirra.

Í öðru lagi segir hann að ekki gangi upp sú dómvenja sem mótast hafi hér á landi um meðdómara í málum sem sé vísað á ný héraðsdóms til endurflutnings. Í dag sé oft valinn sami sérfróði meðdómarinn, en Óttar vísaði til þess að þá skorti bæði menntun og reynslu sem dómarar hafi varðandi að setja sig hlutlaust inn í mál að nýju þótt áður hafi verið kveðinn upp dómur í sama máli. Að þetta eigi ekki við um sérfróða dómara sem séu fengnir utan dómskerfisins í sérstök mál. Sem fyrr segir hafði áður verið tekist á um hvort rétt væri að dómsformaður tæki að sér sama mál að nýju og dæmdi Hæstiréttur fyrr í haust að ekki kæmi til vanhæfis dómsformanns þegar máli væri vísað á ný til héraðs úr Hæstarétti.

Í þriðja lagi var vísað í kröfunni til þess að Hrefna Sigríður hefði tapað fjármunum við fall bankanna, en um væri að ræða stofnfjárbréf í Byr. Í kröfunni var vísað til náinna tengsla á milli Glitnis og Byrs, en meðal annars stóð til að sameina þá.

Undir úrskurðinn sem kveðinn var upp í morgun skrifuðu allir dómarar málsins; Símon dómsformaður, Ingimundur Einarsson meðdómari og Hrefna Sigríður, sérfróður meðdómari. Óttar gaf til kynna að hann ætlaði að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar, en óskaði eftir að fá að skila inn greinargerð með málinu. Verjendur hinna ákærðu í málinu kærðu úrskurðinn strax. Má því búast við að Hæstiréttur kveði upp um þetta ágreiningsatriði á næstu dögum.

mbl.is