Tvær þyrlur sendar af stað

TF-Gná var önnur vélin sem send var út.
TF-Gná var önnur vélin sem send var út. mbl.is/Árni Sæberg

Tvær af þyrlum Landhelgisgæslunnar og báðar af þeim sem eru til taks þessa stundina voru sendar út með skömmu millibili núna á þriðja og fjórða tímanum í dag.

Fór önnur vélin að sækja slasaðan sjómann í norskt skip sem var að veiðum fyrir utan Suðausturland. Samkvæmt upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar er þyrlan ekki komin að skipinu og því ekki hægt að greina nánar frá málavöxtum að svo stöddu.

Þá var hin vélin send núna fyrir um korteri síðan á Snæfellsnes til móts við sjúkrabíl sem fór að sækja mann sem slasaðist á fótboltaleik á Hellissandi. Var í gangi leikur milli Víðis/Reynis í Garði og Snæfellsness og lenti einn leikmaðurinn í hrauni fyrir utan völlinn þar sem hann rak höfuðið í grjót.

Þyrlurnar TF-Gná og TF-Sýn sinna verkefnunum, en TF-Líf er í viðhaldsskoðun.

Uppfært kl. 17:00: Þyrlan sem fór á Snæfellsnes lenti á Landspítalanum í Fossvogi fyrir stuttu síðan, en hin er enn í aðgerðum.

Uppfært kl. 18:30: Tvö slys urðu í fótboltaleiknum á Snæfellsnesi og var þyrlan kölluð til vegna síðara slyssins þar sem leikmaður lenti í hrauni fyrir utan völlinn. Í upphaflegri frétt kom fram að þyrlan hefði sótt mann sem hefði lent í samstuði við annan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert