Dæmdur fyrir að geyma dóp

Maðurinn hafði einungis það hlutverk í málinu að geyma fíkniefnin …
Maðurinn hafði einungis það hlutverk í málinu að geyma fíkniefnin tímabundið. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir sinn þátt í stórfelldu fíkniefnabroti, fyrir að hafa haft í vörslum sínum rúm 469 g af amfetamíni, tæp 13 g af MDMA og hálft gramm af kannabisefnum. Efnin fundust er lögregla gerði leit á heimili hans og í húsnæði við Linnetstíg í Hafnarfirði árið 2014.

Annar maður var ákærður í þessu sama máli fyrir að skipuleggja og fjármagna innflutning efnanna frá Belgíu, en þar sem sá maður lét ekki sjá sig við réttarhöld í málinu var tekin ákvörðun um að kljúfa hans þátt frá málinu.

Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness 31. ágúst og segir í dómnum að maðurinn hafi játað brot sitt skýlaust frá upphafi.

Játningin er metin manninum til málsbóta og sömuleiðis samvinna sem hann sýndi við rannsókn málsins, auk þess sem lagt var til grundvallar að maðurinn hefði „einungis haft það hlutverk í málinu að geyma fíkniefnin tímabundið“.

Maðurinn þarf að greiða hátt í eina milljón króna í sakarkostnað vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert