Dæmdur fyrir að nauðga æskuvinkonu

Landsréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms yfir karlmanni sem dæmdur var …
Landsréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms yfir karlmanni sem dæmdur var í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað æskuvinkonu sinni sem gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar. mbl.is/Hari

Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms yfir karlmanni sem dæmdur var í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað æskuvinkonu sinni sem gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar.

Nauðgunin átti sér stað í september 2014 en konan lagði fram kæru á hendur manninum í febrúar 2017. Konan fékk að gista heima hjá æskuvini sínum þegar hún að kærasti hennar höfðu komið til borgarinnar. Hún lýsir því að hún hafi orðið mjög drukkin um kvöldið og farið að sofa eftir að hún kastaði upp. Hún hafi síðan vaknað upp við það að maðurinn hafi verið að hafa við hana samræði um leggögn aftan frá. Hún hafi risið upp og fært sig frá manninum en sökum ölvunar hafi hún lognast út af aftur.

Ætlaði að „reyna að lifa með þessum atburði“

Þegar konan vaknaði um morguninn var hún aum í kynfærum og ákvað hún á þeirri stundu „að reyna að lifa með þessum atburði,“ að því er fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Mánuðum síðar hafi hún áttað sig á því hvers eðlis brot ákærða hafi verið og sótt sér aðstoð við að glíma við afleiðingar þess. Hún ákvað að hitta æskuvininn og segja honum frá því hvernig hann hafi brotið gegn sér.

Í frásögn ákærða fyrir dómi kemur fram að hann hafi fengið sjokk þegar konan sagði honum frá hvernig hann upplifði atburðina þetta kvöld. Hann segist hafa spurt konuna hvort hann mætti sofa hjá hana og segir hana hafa samþykkt það. Þau háttuðu sig og lögðust upp í rúm og þegar hann tók utan um konuna sagðist hann hafa fundið fyrir kynferðislegri spennu á milli þeirra. Eftir það hafi þau afklæðst og haft samfarir.

Ákærði segist hafa viðurkennt brotið fyrir konunni til að láta henni líða betur. Hann viðurkenndi einnig brotið fyrir sameiginlegum vini þeirra.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að útskýringar ákærða á því af hverju hann hafi gengist við brotinu þrátt fyrir að telja sig saklausan væru ekki trúverðugar. Framburður konunnar var metinn trúverðugur.

Maðurinn var, sem fyrr segir, dæmdur í tveggja ára fangelsi. Landsréttur hefur nú staðfest þann dóm og er manninum einnig gert að greiða miskabætur, 1,8 milljónir króna, auk sakarkostnaðs, 2,5 milljónir króna. Ákærða er sömuleiðis gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, 2,1 milljón króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert