Dæmdur fyrir að ráðast gegn dóttur sinni

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur staðfesti í gær dóm yfir föður sem hafði verið dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi fyrir að hafa tekið dóttur sína hálstaki á vinnustað hennar. Hann hafði hins vegar verið sýknaður af ákæru um að hafa hótað konunni lífláti.

Var manninum gert að greiða konunni 300 þúsund í miskabætur, auk þriggja fjórðu hluta sakarkostnaðar fyrir héraði og 830 þúsund í sakarkostnað í Landsrétti.

Maður­inn var ákærður í vor fyr­ir lík­ams­árás, hót­un og heim­il­isof­beldi. Sam­kvæmt ákæru veitt­ist hann að dótt­ur sinni í versl­un þar sem hún var við vinnu í fyrra.

Í ákæru seg­ir að hann hafi tekið hana kverka­taki og ýtt henni utan í vegg  með þeim af­leiðing­um að hún hlaut meiðsli af. Jafn­framt hafi hann á sama tíma hótað henni líf­láti. 

Stúlk­an lagði fram kæru á hend­ur föður sín­um dag­inn eft­ir árás­ina í fyrra en embætti lög­reglu­stjóra gaf út ákæru í maí 2017. Maður­inn var yf­ir­heyrður vegna máls­ins í fyrra af lög­reglu og staðfesti hann að hafa komið á vinnustað dótt­ur sinn­ar og þau hefðu rif­ist heift­ar­lega. Kvaðst hann hafa tekið í bol henn­ar við háls­mál. Hugs­an­lega hafi hann tekið í háls­inn á henni en hann kvaðst ekki muna það enda hafi hann verið svo reiður. 

Hann greindi jafn­framt frá því sem gerðist kvöldið áður en þá hefði dótt­ir hans hringt í hann og hellt sér yfir hann. Hún hefði ekki viljað að hann væri að skipta sér af henn­ar mál­um. Hann hefði ákveðið að fara á vinnustað henn­ar næsta dag og ræða við hana. Þegar þangað var komið hefði hann séð hana og gengið rak­leiðis til henn­ar. Kannaðist hann við að hafa verið í nokkru upp­námi og misst stjórn á sér. Hann hefði gripið í fatnað henn­ar í bringu­hæð. Nán­ar spurður og bor­inn und­ir hann framb­urður hans hjá lög­reglu, kannaðist hann við að hafa gripið í háls­mál henn­ar og haldið henni þannig nokkra stund. Hann hefði svo sleppt og farið út.

Hann neitaði að hafa hótað henni líf­láti en viður­kenndi að hafa verið há­vær. Kona sem starfaði með dótt­ur manns­ins varð vitni að því hvernig hann hélt um kverk­ar henn­ar með ann­arri hendi. 

Í niður­stöðu héraðsdóms kem­ur fram að fall­ist sé á að maður­inn hafi ráðist á dótt­ur sína en sýkna beri hann af ákæru um að hafa hótað henni líf­láti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert