Ferðabann Trumps gildir um Ísland

Ferðabann þetta tekur gildi á miðnætti á morgun, föstudag, og …
Ferðabann þetta tekur gildi á miðnætti á morgun, föstudag, og gildir í 30 daga. AFP

Ferðabannið sem bandarísk yfirvöld hafa sett frá Evrópu nær til allra þeirra sem verið hafa á Schengen-svæðinu undanfarna 14 daga. Nær bannið þannig til Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Grikklands, Ungverjalands, Íslands, Ítalíu, Lettlands, Liechtenstein, Litháen, Luxemburg, Möltu, Hollands, Noregs, Póllands, Portúgals, Slóvakíu, Slóveníu, Spánar, Svíþjóðar og Sviss.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, sem send var út eftir tilkynningu Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Bannið nær þannig ekki til Bretlands, þrátt fyrir að kórónuveirusmit þar séu orðin á fimmta hundrað og dauðsföll átta. Í tilkynningu sinni vegna málsins sagði Trump að Evrópulönd hefðu brugðist seint og illa við kórónuveirufaraldrinum, öfugt við bandarísk yfirvöld, og að Evrópubúar hafi borið kórónuveiruna með sér til Bandaríkjanna.

Í Bandaríkjunum hafa ríflega 1.300 tilfelli kórónuveirunnar komið upp og eru dauðsföll að nálgast 40.

Ferðabannið nær ekki til þeirra sem eiga lögheimili í Bandaríkjunum eða ættingja bandarískra ríkisborgara og á ekki við um viðskipti á milli Bandaríkjanna og Evrópu. Það kom fram í máli Trump þegar hann tilkynnti ferðabannið, en hann dró þau orð sín síðar til baka.

Ferðabann þetta tekur gildi á miðnætti á morgun, föstudag, og gildir í 30 daga.

Sagði Trump enga hættu á fjármálakreppu vegna þessa. Þetta væri vandamál sem ætti eftir að standa yfir í stuttan tíma. Þá kynnti hann áætlanir um neyðaraðgerðir til þess að aðstoða starfsmenn sem verða af launum við að smitast. Eins sagðist hann búinn að biðja þingið um að losa um 50 milljarða Bandaríkjadala í lánasjóð fyrir smærri fyrirtæki. Þá kallaði forsetinn eftir tafarlausum niðurskurði á tekjuskatti.

mbl.is

Kórónuveiran

30. mars 2020 kl. 14:16
1086
hafa
smitast
157
hafa
náð sér
30
liggja á
spítala
2
eru
látnir