Vill ná einingu innan félagsins

Þórarinn Tyrfingsson.
Þórarinn Tyrfingsson. Ljósmynd/SÁÁ

Þórarinn Tyrfingsson vill leggja sitt af mörkum til að ná einingu innan SÁÁ og kveða niður þann óróleika sem einkennt hefur starf samtakanna síðustu misseri. Því býður hann sig fram til formennsku í félaginu. Þetta segir hann í samtali við mbl.is.

Þórarinn er öllum hnútum kunnugur innan samtakanna, en hann hóf störf þar árið 1979, tók við starfi yfirlæknis á Vogi árið 1983 og gegndi því til ársins 2017. Þá var hann stjórnarformaður samfara yfirlæknisstöðunni árin 1988 til 2011.

„Það er mikil ábyrgðarstaða að vera yfirlæknir og í raun framkvæmdastjóri sjúkrahússins Vogs,“ segir Þórarinn. Manni beri skylda til að gera rekstraráætlanir sem taka mið af þjónustusamningum og þeim ramma sem framkvæmdastjórnin setur manni í upphafi árs.

SÁÁ reka sjúkrahúsið Vog.
SÁÁ reka sjúkrahúsið Vog. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Rekstur SÁÁ hefur farið samtals um 200 milljónum fram úr samþykktum áætlunum síðustu tvö ár líkt og fram kemur í bréfi fráfarandi formanns, Arnþórs Jónssonar, til stjórnarmanna. Aðspurður segir Þórarinn þó að með þessari brýningu sé hann ekki að gagnrýna Valgerði Rúnarsdóttur yfirlækni.

Valgerður sagði upp störfum fyrr á árinu vegna ósættis milli hennar og stjórnar félagsins um ráðningarmál stofnunarinnar, en dró uppsögnina síðar til baka eftir fjölda áskorana þess efnis. Sagði hún í samtali við mbl.is að enn ætti eftir að skýra hlutverk stjórnar félagsins annars vegar og fagráðinna starfsmanna hins vegar. Þessu er Þórarinn ósammála. Hann telur skipurit samtakanna og ráðningarsamninga nokkuð skýra, en segir að vitanlega megi gera lagabreytingar hjá SÁÁ líkt og annars staðar og ekkert sé því til fyrirstöðu að ræða þau mál. 

Aðalfundur SÁÁ verður haldinn 30. júní. Auk formannskjörsins má eiga von á að önnur hitamál verði þar til umræðu, svo sem eignarhlutur félagsins í Íslandsspilum sem rekur spilakassana hérlendis. Mótframbjóðandi Þórarins, Einar Hermannsson, hefur kallað eftir því að það verði endurskoðað og tekur Þórarinn undir að eðlilegt sé að ræða það, þótt hann vilji hvorki gefa af né á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert