Einn stærsti Pfizer-skammturinn á leiðinni

20.000 skammtar af Pfizer koma til landsins í næstu viku.
20.000 skammtar af Pfizer koma til landsins í næstu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er bara á ágætisróli. Við erum að fá um 20.000 skammta af Pfizer í næstu viku sem er með því mesta sem hefur komið af því bóluefni,“ segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, en fyrirtækið sér um dreifingu og hýsingu bóluefna hér á landi.

Í samtali við mbl.is segir Júlía svipaða skammta koma frá Pfizer í hverri viku út júní og því sé góður mánuður fram undan í bólusetningum.

Í gær greindi RÚV frá því að útlit væri fyrir að fáir skammtar kæmu til landsins af bóluefni AstraZeneca í sumar.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sagði í viðtali við mbl.is í morgun að reynt sé að bólusetja ekki nýja einstaklinga með efninu, frekar séu skammtar geymdir til þess að safna birgðum af efninu til þess að eiga fyrir bólusetningu númer tvö.  

Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica.
Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 1.300 til 1.600 skammtar á viku

Júlía segir það ekki vera skrýtið að verið sé að safna bóluefninu upp þar sem AstraZeneca hefur ekki gefið afhendingaráætlun á bóluefninu nema nokkrar vikur fram í tímann. „Það er óvissa um hvað á eftir að koma,“ segir Júlía og bætir við að sömu sögu megi segja um bóluefnið Janssen. Moderna og Pfizer hafa hins vegar gefið út áætlanir út júlí og júní.  

„Við höfum alltaf bara verið að fá mjög litlar sendingar af AstraZeneca nema þegar við fengum auka stóran skammt frá Norðurlöndunum,“ segir Júlía en í apríl fengu Íslendingar meðal annars 16.000 skammta af bóluefninu frá Norðmönnum. Sendingar af AstraZeneca til landsins hafa verið um 1.300 til 1.600 skammtar á viku.

Ekki áhyggjur af því að fólk fái ekki seinni bólusetningu

Júlía segir þó að fólk eigi ekki að hafa áhyggjur af því að fá ekki seinni bólusetningu af AstraZeneca.

„Sendingarnar hafa alltaf komið í hverri viku og það er ekkert sem segi að það muni ekki halda áfram.“

Hún bætir við að Distica hafi verið að geyma eitthvað af bóluefninu þar sem það geymist vel en mest sé þó notað.

Samkvæmt upplýsingum á covid.is hafa um 60 þúsund Íslendingar fengið bóluefnið frá AstraZeneca en aðeins um 5 þúsund teljast fullbólusettir með bóluefninu. Þrír mánuðir líða milli fyrri og seinni sprautunnar. Frá um miðjan mars til loka apríl voru nærri 44 þúsund Íslendingar bólusettir með bóluefninu og ættu þeir því að fá seinni sprautuna í júní og júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert