Fleiri smit hjá óbólusettum börnum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir .
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir . mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta eru bara nokkuð góðar tölur. Við sjáum að þó að það sé munur á milli daga þá þokast þetta hægt og bítandi niður á við og það er bara ánægjulegt. Við erum væntanlega að ná einhverskonar jafnvægi utan um þetta myndi ég halda,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is um smittölur dagsins við Covid-19. 

Hann segir ekki ljóst á þessari stundu hvar umrætt jafnvægi muni liggja. 

„Það er líka ánægjulegt að við erum ekki að fá fleiri innlagnir núna á spítalann, það er auðvitað stóra markmiðið, að íþyngja ekki um of heilbrigðiskerfinu,“ bætir Þórólfur við. 

Yngra fólk að smitast

Óvenjumargir smitaðir hafa verið óbólusettir undanfarna daga. Hvað skýrir það?

„Ég held að það sé vegna þess að meðalaldur þeirra sem við erum að greina er töluvert lægri en hann var. Við erum að greina meira af yngra fólki, börn á skólaaldri og jafnvel börn sem eru ekki inni í bólusetningartölum almennt séð og eru ekki inni í bólsetningaráformum.“

Upp hafa komið smit í mörgum skólum en heildarfjöldi smitaðra í skólum er ekki svo mikill. Hvað segir það okkur?

„Við erum ekki að sjá neinar stórar sýkingar á einstaka stöðum. Við erum greinilega ekki að sjá mikla útbreiðslu frá þeim börnum, þannig að það er bara fínt. Þetta getur líka verið vísbending um það að bólusetning starfsmanna í skólum sé að skila sér og vonandi eru reglurnar um sóttkví og smitgát að skila sér sömuleiðis.“

Grímuleysi í búðum hið besta mál 

Þórólfur segist ekkert setja út á að Bónus og Krónan, tvær stærstu matvöruverslanakeðjur á Íslandi, hafi fallið frá grímuskyldu innan sinna verslana.

„Það var ekki grímuskylda frá okkar hendi í þessum verslunum. Grímuskylda var eingöngu þar sem ekki var hægt að viðhafa þessa eins meters reglu. Það eru margir staðir sem hafa ákveðið að hafa grímuskyldu og eru að létta á því núna. Það er bara hið besta mál,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert