Fjölgað um sjö Covid-sjúklinga á spítalanum

Landspítali/Þorkell Þorkelsson

21 sjúklingur liggur á Landspítala með Covid-19.  Meðalaldur inniliggjandi er 63 ár. Fjórir eru á gjörgæslu, þrír þeirra í öndunarvél. Þetta kemur fram á vef spítalans.

Hefur fjölgað um sjö en í gær var greint frá því að 14 lægju á spítalanum vegna Covid-19. Sex af þeim sjö sem bættust við lágu á hjartadeild spítalans en sá sjöundi var fluttur þangað af Landakoti.

5.126 sjúklingar eru á Covid-göngudeild spítalans, þar af 1.142 börn.

Frá upphafi fjórðu bylgju, 30. júní 2021, hafa verið 252 innlagnir vegna Covid-19 á Landspítala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert