Skráning stríðsglæpa þungavigtarmál

Bjarni ræðir um brottnám úkraínskra barna á þingi Evrópuráðsins í …
Bjarni ræðir um brottnám úkraínskra barna á þingi Evrópuráðsins í Strassborg í apríl. Að baki honum sitja þau Oleksandr Merezhko, formaður utanríkismálanefndar Úkraínu, og Maria Mezentseva, formaður þingmannanefndar Úkraínu í Evrópuráðsþinginu. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem hæst stendur er auðvitað staðfestingin og skráningin á öllu þessu tjóni í Úkraínu sem hefur verið valdið, hverjir hafa valdið því og hvernig það fæst bætt, eitthvað sem verður hægt að nýta í dómsmálum síðar,“ segir Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í samtali við mbl.is um það sem hæst ber á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík.

Vísar hann þar til svokallaðrar Tjónaskrár, Registry of Damages, sem halda muni utan um það sem stjórnendur Rússlands síðar verði krafðir reikningsskila um.

Sjálfur ávarpaði Bjarni stjórnarnefndarfund Evrópuráðsþingsins í gær, sem fram fór í tengslum við leiðtogafundinn, sem formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og lét þess meðal annars getið í máli sínu þar að efst á baugi fundarins væri innrásin í Úkraínu og samstaða Evrópusamfélagsins með stríðshrjáðu nágrannaríki. Sú ábyrgð sem Rússar stæðu frammi fyrir á efsta degi væri þar enn fremur veigamikill þáttur að ógleymdum öllum þeim börnum sem rænd hefðu verið framtíð sinni.

Bjarni flytur ávarp sitt á stjórnarnefndarfundi Evrópuráðsþingsins. „Við munum skrásetja …
Bjarni flytur ávarp sitt á stjórnarnefndarfundi Evrópuráðsþingsins. „Við munum skrásetja söguna hér í Reykjavík. Nú er það í höndum okkar þjóðarleiðtoga að sýna þá dirfsku sem þarf til að svo megi verða,“ voru lokaorð hans. Ljósmynd/Aðsend

Umhverfis- og loftslagsmál voru einnig á blaði hjá Bjarna í ávarpi hans auk mannréttinda í álfunni. „Við munum skrásetja söguna hér í Reykjavík. Nú er það í höndum okkar þjóðarleiðtoga að sýna þá dirfsku sem þarf til að svo megi verða,“ sagði Bjarni í ávarpinu, hér í lauslegri þýðingu úr ensku.

Við mbl.is segir hann: „Ég vænti þess líka að frekari umræða verði um stríðsglæpi og meðferð þeirra og spurning hve langt verði gengið í þeim efnum, þetta var mjög sterkt varðandi þessa skráningu á stríðsglæpunum sem er undirstaða þess að hægt verði að fylgja þeim eftir.“

Bendir þingmaðurinn sérstaklega á að ekkert sambærilegt hafi verið gert áður, „og svo er þetta opið að því leytinu til að aðrar þjóðir geta skráð sig með, þetta verða ekki bara þessar 46 þjóðir Evrópuráðsins heldur munu aðrar þjóðir geta tekið þátt, þessi ríki sem átt hafa áheyrnarfulltrúa geta bæst í hópinn, Bandaríkin, Kanada, Mexíkó og Japan og mögulega fleiri sem eru sama sinnis,“ segir Bjarni.

Bjarni ásamt Kalniņu Lukaševicu, formanni lettnesku þingmannanefndarinnar í Evrópuráðsþinginu, fyrir …
Bjarni ásamt Kalniņu Lukaševicu, formanni lettnesku þingmannanefndarinnar í Evrópuráðsþinginu, fyrir utan Alþingi. Lettar taka við formennsku af Íslendingum í næstu viku í Evrópuráðinu. Ljósmynd/Aðsend

Að auki verði grunngildi Evrópuráðsins eins og rauður þráður gegnum dagskrá fundarins, lýðræði og óháðir dómstólar sé ekki sjálfgefinn raunveruleiki í öllum aðildarríkjunum.

„Svo verða líka stigin ákveðin skref í átt að viðurkenningu á rétti til heilnæms umhverfis og verndun líffræðilegs fjölbreytileika að ógleymdri baráttunni gegn loftslagsbreytingum, það er bara spurning hve langt verður gengið í þeim efnum, en þar verða alla vega ný skref stigin, til dæmis staðfesting þess að aðgangur að heilnæmu umhverfi teljist til mannréttinda,“ segir Bjarni.

Gervigreindin, fyrirbæri sem vakið hefur úlfaþyt um allan heim nýverið, verður einnig umræðuefni á fundinum. „Og þá mannréttindi henni tengd, þetta hefur auðvitað verið að gerast mjög hratt og umfjöllun um gervigreind er ein þeirra áherslna sem komu frá okkur, gestgjöfunum,“ heldur hann áfram.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsins í gær.
Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsins í gær. Ljósmynd/Aðsend

Bjarni segir enn rými til að styrkja samþykktir fundarins enn frekar, en Úkraína og sú samþykkt sem undirrituð verður um samstöðu með landinu sé algjör þungamiðja dagskrárinnar í Reykjavík. „Þetta er að taka á sig lokamynd núna en þarna verða sterk skilaboð send út og eitt af því jákvæða við þennan fund er að þarna verður byggt á tillögum Evrópuráðsþingsins sjálfs sem það vann og lagði fram, þannig að þetta er ekki bara framkvæmdarvaldið og ríkisstjórnirnar sem eru á bak við þetta heldur þjóðþingin og fulltrúar þeirra í Evrópu sem hafa veruleg áhrif á það sem þarna fer fram, þetta gefur þessu breiðara vægi,“ segir Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar, um leiðtogafundinn í Reykjavík og þau málefni sem þar munu rista hve dýpst.

Á fundinum nú undir kvöld, Bjarni annar frá hægri í …
Á fundinum nú undir kvöld, Bjarni annar frá hægri í fremri röð. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert