Segir brottrekstrarsök tengjast reiðbuxum

Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II urðu Landsmótsmeistarar …
Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II urðu Landsmótsmeistarar í 250 metra skeiði árið 2018. Síðan hefur Konráð afrekað margt í íþróttinni og er nú heimsmeistari. Ljósmynd/hag

„Mér finnst þetta vera hrein rökleysa, þessi ákvörðun Landssambands hestamannafélaga, og mér skilst að hún verði borin undir dómstól ÍSÍ [Íþrótta- og ólympíusambands Íslands] strax eftir helgi,“ segir Óskar Sæberg, lögfræðingur og talsmaður Konráðs Vals Sveinssonar, heimsþekkts knapa og heimsmeistara í hestaíþróttum, sem nú hefur verið vísað úr landsliðshópi landssambandsins eins og mbl.is hefur greint frá.

Kveður Óskar brottvísunina sorglega en hún byggir að hans sögn meðal annars á því að Konráð hafi ekki komið í réttum buxum á mót og mætt seint á liðsfund. „Landsliðsnefnd LH leggur Gróu á Leiti til grundvallar í stað staðreynda,“ segir Óskar og bendir á að engin leið sé að skilja raunverulega ástæðu brottrekstrarins í ákvörðunarbréfi nefndarinnar. Nefnir hann enn fremur að Konráð hafi verið skikkaður á fund í gær vegna atviks á Reykjavíkurmeistaramóti Fáks. Eftir fundinn hafi honum svo verið tilkynnt um brottrekstur úr liðinu vegna agabrots.

Hlotið tvær áminningar

„Þarna vil ég doka við og spyrja hver sé hin raunverulega ástæða brottrekstrar Konráðs,“ segir Óskar. „Ég spyr því nefndina, hvað gerði Konráð svona slæmt að það réttlæti að nefndin rjúki til og sparki heimsmeistaranum okkar í burtu korteri fyrir heimsmeistaramót?  Mér vitandi hefur Konráð hlotið tvær áminningar fyrir agabrot, aðra fyrir að mæta of seint á liðsfund og hina fyrir að mæta í vitlausum reiðbuxum.

Önnur agabrot hafa ekki verið kynnt mér eða Konráði. Við spurðum nefndina ítrekað hvort það tengdist líkamsárásinni sem hann varð fyrir í kjölfar þess að hafa bakkað á bifreið starfsmanna Alendis TV á Reykjavíkurmeistarmóti Fáks í Víðidal 14. júní,“ segir Óskar enn fremur og vísar þar til streymisveitu hestaíþrótta.

„Þetta er einn fremsti knapi í öllum heiminum, ríkjandi heimsmeistari, og það birtist mér þannig að þarna sé LH komið á milli í baráttu einstaklinga um félagið Alendis,“ segir Óskar og kveður Pál Kristjánsson og KRST lögmenn munu flytja málið fyrir dómstól ÍSÍ eftir helgi.

Réttur gangi ekki lengra en skyldur

Kristinn Skúlason, formaður landsliðsnefndar LH, kýs að tjá sig ekki um málið í samtali við mbl.is en vísar í yfirlýsingu sína á vef hestamannaritsins Eiðfaxa sem þar er sett fram í viðtali við hann.

Kveður Kristinn þar alla knapa sem keppa undir merkjum Íslands eða tilheyri landsliðshópi skrifa undir knapasamninga, siðareglur landsliðsnefndar og hegðunarviðmið ÍSÍ. „Þetta á við um ríkjandi heimsmeistara sem og aðra landsliðsknapa. Fari knapar á svig við samninginn fá þeir áminningu eða eru settir úr hóp eftir alvarleika brotanna eins og fram kemur í siðareglum landsliðsnefndar. Samningurinn tekur á ýmsum þáttum, meðal annars þátttöku í viðburðum landsliðsins, klæðaburð[i], íþróttamannslegri hegðum, notkun á öryggisbúnaði, dýravelferð, vímuefnanotkun, framkomu, háttsemi og upplýsingaflæði,“ segir Kristinn við Eiðfaxa.

Kveður hann rétt einstaklings til að verja heimsmeistaratitil ekki ganga lengra en skyldur hans við þá samninga sem sá hinn sami hafi gert við landsliðið. Þá komi fram í reglum að heimsmeistarar skuli vera formlega skráðir af viðkomandi landssamtökum, lúta valdi landsliðsþjálfara og fara eftir lögum og reglum landsliðsins í viðkomandi landi.

Algjör einhugur

Mætti líklega fella buxnaval Konráðs undir orð Kristins um klæðaburð en aðspurður segir hann við Eiðfaxa að heimsmeistarinn geti átt afturkvæmt í landsliðið og sem allra fyrst. Þá hafi hann ekki fallið á lyfjaprófi samkvæmt þeim upplýsingum sem LH búi yfir. Klykkir Kristinn út með svofelldum orðum:

„Að keppa fyrir hönd Íslands flokkast hvorki undir atvinnuréttindi eða mannréttindi á nokkurn hátt og það er afar sorglegt þegar málsmetandi fólk fer fram með slíkum málflutningi. Landsliðsnefnd hefur nýlega fjallað um mál beggja aðila með landsliðsþjálfara og það er mikilvægt að fram komi að innan hópsins var algjör einhugur um ákvarðanirnar. Að því sögðu hefur landsliðsnefnd ekki heimild til að tjá frekar sig um mál einstakra knapa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert