Möguleg rýming í sífelldri endurskoðun

Horft yfir Bláa lónið. Öflug skjálftahrina stendur enn yfir á …
Horft yfir Bláa lónið. Öflug skjálftahrina stendur enn yfir á Reykjanesskaga. mbl.is/Hákon

„Það er mjög öflug hrina í gangi núna, með þeim öflugri frá því þetta byrjaði. Við erum að meta það hvað þetta þýðir, eins og staðan er í þessum töluðu orðum, og hver þróunin verður. Við fylgjumst mjög vel með þessu og metum hvað þetta þýðir, hvort við erum að horfa á einhverja breytingu eða hvort þetta er bara eðlileg hrina miðað við hvað er í gangi.“

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum, spurður hvaða staða sé uppi í augnablikinu á Reykjanesskaga en lítið lát hefur verið á stórum og öflugum skjálftum síðasta sólarhringinn.

„Við komum seinna með frekari upplýsingar um þetta, við erum bara virkilega að skoða þetta eins og staðan er núna.“

Almannavarnir meta stöðuna út frá gögnum Veðurstofunnar

Spurður hvort ekki þurfi að endurskoða það að hafa Bláa lónið opið, einn fjölsóttasta ferðamannastað landsins, segir Benedikt það í sífelldri endurskoðun.

„Það er stöðugt verið að skoða hvenær sá tímapunktur kemur. Á einhverjum tímapunkti ef sú atburðarás fer í gang þarf náttúrulega að rýma.“

Segir hann að á endanum sé það almannavarna að taka þá ákvörðun út frá gögnum Veðurstofunnar. 

„Hvort sá tími er kominn akkúrat núna eða hvenær hann kemur – ég er ekki rétti maðurinn til að svara því en skjálftalega séð erum við ekki að tala um skjálfta sem eru að ógna mannvirkjum. Það er fyrst og fremst kvikan sem við erum að horfa á.“

Ekki að horfa á neitt sem bendir til eldgoss núna á eftir

Inntur eftir því að lokum hvort nokkrir klukkutímar séu nóg ef rýma þarf svæðið segir hann Bláa lónið hafa gefið það út að hægt verði að rýma mjög hratt.

„Við erum ekki að horfa á neitt sem segir að það sé að byrja gos núna á eftir, ekki enn þá, en við erum að reyna að átta okkur á því hvort við erum að horfa á kvikuhreyfingar sem gætu leitt til eldgoss núna, það er að segja kvikuhlaupa eins og gerðust í Fagradalsfjalli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert