„Eðlisbreyting eftir helgina“

Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, á íbúafundi Grindvíkinga …
Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, á íbúafundi Grindvíkinga í Laugardalshöll. Á myndinni sitja í pallborði auk hennar; Hulda Ragn­heiður Árna­dótt­ir, forstjóri Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing­ar Íslands, Sig­urður Ingi Jó­hanns­son innviðaráðherra og Úlfar Lúðvíks­son, lög­reglu­stjóri á Suður­nesj­um. Einnig glittir í Ara Guðmunds­son, verk­efna­stjóra vegna bygg­ingu varn­arg­arða og sviðsstjóra hjá Verkís. mbl.is/Arnþór

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir skilaboð Grindvíkinga til stjórnvalda skýr en að ekki sé hægt að taka ákvörðun upp á 120 milljarða eins og er.

„Við getum ekki heyrt mikið skýrar hvernig ykkur líður og eftir hverju þið eruð að kalla,“ sagði Þórdís í kjölfar spurninga frá Grindvíkingum á íbúafundi nú í kvöld, þar sem þeirri spurningu var meðal annars varpað fram hvort ríkið myndi kaupa Grindvíkinga út úr húsnæði sínu. 

„Degi síðar rennur svo gos inn í bæinn“

Þórdís sagði eðlisbreytingu hafa átt sér stað eftir helgina þegar hraun rann inn í Grindavíkurbæ.

„Þá er ég ekki að gera lítið úr því sem gerðist á undan, en það var eðlisbreyting,“ sagði hún. 

Hún nefndi að síðastliðinn laugardag hefði verið metið sem svo að meiri hætta stafaði jarðsigi í Grindavík heldur en að hraun rynni inn í bæinn og því ákveðið að rýma.

„Degi síðar rennur svo gos inn í bæinn.“

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og …
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á íbúafundi Grindvíkinga í Laugardalshöll. mbl.is/Arnþór

Um 120 milljarðar undir

Þórdís benti þá á að vátryggingarvirði íbúða í Grindavík væri um 109 milljarðar og brunatryggt innbú væru 13 milljarðar aukalega. Þá væru þetta í heildina um 120 milljarðar. 

Þá sagðist hún skilja óþægindin sem fylgja óvissunni vel og að þau sem ættu alveg skemmd hús hefðu að minnsta kosti getað eytt óvissunni út.

„Það var fólkið sem gat á endanum eytt óvissunni og sagt: Ókei, ég fer þá eitthvert annað,“ sagði Þórdís og bætti við: „Sumt fólk. Mér myndi líða alveg nákvæmlega eins.“

Hún sagði þá að hún gæti ekki sagt núna hvernig þau gætu farið með 120 milljarða strax á þessari stundu, enda ekki hægt að segja til um hvaða áhrif það hefði á efnahagslífið.

Ráðherra uppskar ekki lófatak er hún lauk máli sínu, ólíkt öðrum sem tekið hafa til máls á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert