„Erum í viðbragðsstöðu“

Ekki hefur verið mikið um útköll hjá björgunarsveitum í dag.
Ekki hefur verið mikið um útköll hjá björgunarsveitum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að ekki hafi verið mikið um útköll enn sem komið er vegna veðursins á Suður- og Suðvesturlandi.

Gular veðurviðvarnir tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa og Suðurlandi klukkan 12.30 og á Suðausturlandi tekur hún gildi klukkan 15.30. Á Faxaflóa dettur gul veðurviðvörun út klukkan 17, 17.30 á höfuðborgarsvæðinu, 18.30 á Suðurlandi og klukkan 19 á Suðausturlandi.

„Við þurftum að veita smá aðstoð á Suðurnesjunum og þá helst í kringum flugstöðina og þá sá ég rétt áðan að það var verið að óska eftir aðstoð á Uxahryggjum þar sem bifreið festist,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is.

Hann segir að fólk frá Landsbjörgu sé á lokunarpóstunum á Kjalarnesi, sitt hvorum megin við Hellisheiðina, í Þrengslunum og á Lyngdalsheiðinni.

„Ef þetta fara að verða einhver leiðindi á höfuðborgarsvæðinu þá verður þetta fljótt að vinda upp á sig. Við erum í viðbragðsstöðu en vonandi verður veðrið ekkert leiðinlegra en þetta sem við erum að sjá núna hér á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Jón Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert