SFF bregst við áliti EFTA-dómstólsins

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hafa sent frá sér tilkynningu.
Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hafa sent frá sér tilkynningu.

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hafa sent frá sér tilkynningu á heimasíðu sinni þar sem áréttað er að eingöngu sé um álit EFTA-dómstólsins að ræða. Bent er á að það sé hlutverk íslenskra dómstóla að dæma um gildi ákvæða í skilmálum fasteignalána um vaxtabreytingar hér á landi.

Vísað er til álits sem birt var í gær þar sem tiltekið var að ógagnsæi væri í lánaskilmálum bankanna. Héraðsdómur Reykjavíkur, Héraðsdómur Reykjaness óskuðu eftir áliti EFTA-dómstólsins. Þar liggja fyrir dómsmál um skírleika lánaskilmála.   

Ekki að finna í fasteignatilskipun 

Í tilkynningu er bent er á að málið varði samningsákvæði í lánssamningum bankanna um forsendur fyrir breytingum á vöxtum fasteignalána.

Þá segir að það sé hlutverk EFTA dómstólsins sé að gefa ráðgefandi álit um túlkun tilskipana og reglugerða Evrópusambandsins. Hins vegar er bent á að á Íslandi séu sérreglur sem ekki er að finna í tilskipun EES um fasteignalán:

„Íslensku lögin hafa að geyma sérreglu um skilyrði fyrir vaxtabreytingum lána sem ekki er að finna í fasteignalánatilskipuninni og mun það lagaákvæði ásamt áliti EFTA-dómstólsins koma til skoðunar hjá héraðsdómi eftir því sem málunum vindur fram," segir í tilkynningu.

Tilkynningin í heild sinni 

„EFTA-dómstóllinn birti í gær ráðgefandi álit á túlkun á tilteknum ákvæðum tilskipana Evrópusambandsins sem varða fasteignalán til neytenda. Tilskipanirnar hafa verið innleiddar með lögum í íslenskan rétt. Álitið er áfangi í rekstri tiltekinna dómsmála hér á landi en samtökin árétta að það er hlutverk íslenskra dómstóla að dæma um gildi ákvæða í skilmálum fasteignalána um vaxtabreytingar hér á landi.

Álits EFTA-dómstólsins var leitað að beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur og Héraðsdóms Reykjaness, í dómsmálum sem rekin eru gegn tveimur bönkum, Landsbankanum og Íslandsbanka. Málin varða samningsákvæði í lánssamningum bankanna um forsendur fyrir breytingum á vöxtum fasteignalána.

Í álitinu er tekið fram að það eru íslenskir dómstólar sem munu skera úr um hvort fjármálastofnun hafi veitt neytanda nægar upplýsingar til að neytandi geti kynnt sér tiltekna virkni þeirrar aðferðar sem notuð eru við útreikning vaxtanna. Þá eru það einnig íslenskir dómstólar að skera úr um hvort umdeildir skilmálar uppfylli kröfur um góða trú, jafnvægi og gegnsæi. Það sama gildir um mat á því hvort skilmálarnir valdi umtalsverðu ójafnvægi réttindi og skyldna milli samningsaðila samkvæmt samningum neytanda til tjóns og þá hvort og hvaða afleiðingar slíkt hafi á skilmála samninganna. Það gildir einnig um mat á því hvort ógilding óréttmætra skilmála sé líkleg til að koma í veg fyrir að samningar haldi gildi sínu.

Hlutverk EFTA dómstólsins er að gefa ráðgefandi álit um túlkun tilskipana og reglugerða Evrópusambandsins. Íslensku lögin hafa að geyma sérreglu um skilyrði fyrir vaxtabreytingum lána sem ekki er að finna í fasteignalánatilskipuninni og mun það lagaákvæði ásamt áliti EFTA-dómstólsins koma til skoðunar hjá héraðsdómi eftir því sem málunum vindur fram.

Umrædd dómsmál munu nú verða tekin til áframhaldandi meðferðar hjá íslenskum dómstólum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert