Karl Gauti búinn að kæra til lögreglu

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, hefur kært niðurstöðu endurtalningar í …
Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, hefur kært niðurstöðu endurtalningar í Norðvesturkjördæmi til lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, hefur kært niðurstöður þingkosninganna í Norðvesturkjördæmi til lögreglu.

Krafa hans er sú að lögregla rannsaki málið, atburðarás þess og þá hvort eitthvað í þeirri atburðarás brjóti gegn ákvæðum kosningalaga

Karl Gauti segir við mbl.is að í lýðræðisríki sé lögreglan best til þess fallin að rannsaka málið. Hann segist jafnframt ekki hafa enn sent Alþingi kæru sína, en Alþingi er sú stjórnvaldseining sem tekur kærur um þingkosningar til meðferðar. Hann segir þó að vel geti verið að svo fari. 

„Já, ég er búinn að kæra til lögreglu, meðferðina og hugsanleg brot á kosningalögum,“ segir Karl Gauti við mbl.is. Vísir greindi fyrst frá

Var inni en datt út

Eins og alþjóð veit varð uppi fótur og fit í kjölfar endurtalningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi á sunnudag, sem hafði þær afleiðingar að skipan jöfnunarþingsæta breyttist. 

Karl Gauti veit þetta vel, enda er hann einn þeirra sem datt út af þingi eftir að atkvæðin voru talin aftur. Í hans stað kom flokksbróðir hans, Bergþór Ólason. Karl Gauti segist gera þá kröfu að niðurstaða kosninganna, áður en atkvæðin voru talin aftur, fái að standa. 

„Ég er að krefjast þess af yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi að hún taki ákvörðun um að lokatölur að morgni sunnudags verði látnar standa, vegna þess hvernig staðið var að undirbúningi endurtalningar,“ segir Karl Gauti. 

Talningin ónýt

Karl Gauti lýsir yfir furðu sinni á því að endurtalning hafi farið fram þegar yfirkjörstjórn og talningarfólk vissi hve mjótt var á mununum og hvað þurfti til þess að breyta skipan jöfnunarþingsæta. 

Þannig vill hann meina að ekki verði staðið rétt að talningu atkvæða þegar talningarfólk og yfirkjörstjórn veit hvað er í húfi. 

„Það er auðvitað íhugunarefni að þegar yfirkjörstjórn er að úrskurða um atkvæði þarna í endurtalningunni, án umboðsmanna, að þá er hún að taka ákvörðun í bága við 103. grein, þar sem segir að ágreiningsefni um seðla eigi að úrskurðast jafnóðum, sem er gert auðvitað til að menn séu ekki undir þeirri pressu að vita að eitt atkvæði skipti máli,“ segir Karl Gauti og bætir við:

„Á kosninganótt, þegar verið er að telja, og verið er að úrskurða kannski hvort eigi að vera B eða D, þá hefur fólk ekki hugmynd um hvort B eða D eru með mann inni eða ekki. En þegar verið er að gera þetta í endurtalningunni, eins og greinilega var gert, án umboðsmanna, þá er kannski verið að úrskurða um örfá atkvæði og fólk veit hvað skilur á milli, að þá ertu bara með handónýta talningu, alveg handónýta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert