Sigmundur biðst afsökunar á flokkaflakki Birgis

Sigmundur Davíð fyrir utan fund Miðflokksins í gær.
Sigmundur Davíð fyrir utan fund Miðflokksins í gær. mbl.is/Óttar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, biður fólk sem lagði mikið á sig við það að koma Birgi Þórarinssyni, sem hefur nú fært sig til Sjálfstæðisflokksins, inn á Alþingi, afsökunar fyrir hönd Miðflokksins. Þá biður hann kjósendur flokksins einnig afsökunar. 

Þetta kom fram í viðtali við Sigmund á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. 

Þar sagði hann að honum þætti það afar sérstakt ef Erna Bjarnadóttir, varamaður Birgis, ætlaði sér að fylgja Birgi yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Það sagði Sigmundur að væri sérstaklega illa gert gagnvart Heiðbrá Ólafsdóttur sem hann sagði að hefði gefið eftir annað sætið á lista í Suðurkjördæmi til Ernu. Heiðbrá var í þriðja sæti listans og sýndi hún „þá ógurlegu fórnfýsi að gefa eftir það sem áður var búið að bjóða henni,“ að sögn Sigmundar.

Hljóti að þýða að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að laga sig að Birgi

Um samspil Birgis og Sjálfstæðisflokksins sagði Sigmundur: 

„Hann gagnrýndi oft og tíðum og mikið Sjálfstæðisflokkinn. Stundum þótti manni jafnvel nóg um það hvernig hann talaði í þingræðum í garð þess flokks og annarra. Allt í einu núna er breytt viðhorf til Sjálfstæðisflokksins. Það hlýtur þá að þýða að Sjálfstæðisflokkurinn ætli einhvern veginn að laga sig að Birgi Þórarinssyni.“

Sigmundur hljómaði frekar bjartsýnn þrátt fyrir nýjustu tíðindi af tilfærslu Birgis og sagði hann að það verði áhugavert að sjá hvaða pólitísku afleiðingar flokkaflakkið muni hafa.

mbl.is

Bloggað um fréttina