Ketó-plokkfiskpanna með smjörsteiktu grænmeti
Ótrúlega einfaldur en syndsamlega góður ketó-plokkfiskur sem allir í fjölskyldunni geta gætt sér á og elskað! Í þessari uppskrift er notað blómkál og brokkólí en það er líka mjög gott að nota hvítkál í staðinn. Ódýrt, fljótlegt og bragðgott er málið með þennan rétt.
Ketó-plokkfiskpanna með smjörsteiktu grænmeti
Fyrir 2 | 7 g af kolvetnum
- 350 gr. hvítur fiskur að eigin vali
- 1 lítill laukur, smátt saxaður
- ½ haus blómkál, rifið niður í matvinnsluvél eða blandara
- ½ haus brokkólí, rifið niður í matvinnsluvél eða blandara
- 2 msk. rjómaostur
- 150 ml rjómi
Aðferð:
1. Settu 1 msk. smjör eða olíu á heita pönnu og steiktu laukinn og grænmetið í 10 mínútur.
2. Færðu grænmetið til hliðar á pönnunni eða taktu það af ef pannan er lítil. Bættu við 1 msk. af smjöri og steiktu fiskinn og maukaðu hann gróft með sleif eða spaða þegar hann byrjar að steikjast.
3. Blandaðu grænmetinu saman við fiskinn, bættu við rjómaostinum, rjómanum og 2 teningum af krafti og leyfðu þessu að malla í 5 mínútur. Settu vel af svörtum pipar eins og alvöruplokkari á að vera og smakkaðu þig til með grófu salti.