Einfaldi eftirrétturinn sem tekur enga stund

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Það þarf ekki alltaf að vera flókið til að vera gott! Royal-karamellubúðingur hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég var lítil stelpa og ég hef nú gert þær nokkrar tilraunirnar með hann í eldhúsinu. Hér erum við með lúxusútgáfu af þessum dásamlega búðingi sem sómir sér vel sem eftirréttur,“ segir Berglind Hreiðars á Gotteri.is um þennan dásamlega einfalda en bragðgóða eftirrétt sem tekur í mesta lagi korter að búa til.

Karamellubúðingur í sparifötunum

Uppskrift dugar í um 6 glös

Botn

 • 200 g Lu Bastogne Duo-kex
 • 30 g brætt smjör

Aðferð:

 1. Setjið kexið í blandarann og myljið niður í duft.
 2. Blandið bræddu smjöri saman við, leggið til hliðar.

Karamellubúðingur

 • 1 pakki Royal-karamellubúðingur
 • 250 ml rjómi
 • 250 ml mjólk

Aðferð:

 1. Pískið búðingsduftið saman við mjólk og rjóma, geymið í skálinni og setjið síðan saman (sjá neðar).

Annað hráefni og samsetning

 • 300 ml þeyttur rjómi
 • Karamellusósa (tilbúin heit íssósa í flösku)
 • Blóm sé þess óskað

Aðferð:

 1. Setjið um eina matskeið af kexi í botninn á glasinu.
 2. Skiptið næst búðingnum á milli glasanna.
 3. Hellið smá karamellusósu yfir og setjið smá meiri kexmylsnu.
 4. Skiptið næst rjómanum niður í glösin og setjið aftur karamellusósu og smá kexmylsnu, toppið með blómum sé þess óskað.
 5. Best er að geyma eftirréttinn í kæli í að minnsta kosti 30 mínútur áður en hann er borinn fram. 
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Loka