Að „sleppa tökunum“ á hinu fullkomna lífi

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir.
Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir er einn af eigendum Attentus og leggur mikið upp úr því að vinna ekki yfir sig en hún hefur á ferli sínum upplifað það hvernig vinna og einkalíf getur stangast á og valdið mikilli togstreitu. Í dag gengur hún á fjöll í frístundum og játar að eftir að hún skildi fyrir um ári hafi líf hennar breyst mikið. 

Attentus var stofnað árið 2007 af Ingunni, Árnýju Elíasdóttur og Ingu Björgu Hjaltadóttur. Í dag eru auk stofnenda þær Guðríður Sigurðardóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir eigendur að fyrirtækinu og starfa þær allar sem ráðgjafar hjá Attentus. Í dag starfa samtals 11 starfsmenn hjá fyrirtækinu og allt reyndir mannauðsstjórar og ráðgjafar.

Út á hvað gengur starfið?

„Meginverkefni Attentus, er þjónustan „Mannauðsstjóri til leigu“, en samtals eru 20 fyrirtæki í föstum samningi við fyrirtækið, m.a. Öryggismiðstöðin, Icelandair Cargo, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, BYKO o.fl.

Starf mitt er mjög fjölbreytt. Ég er með fasta viðveru hjá fyrirtækjum okkar alla daga vikunnar fyrir utan föstudaga en þá hittast starfsmenn Attentus og fara yfir vikuna og það sem er í pípunum. Það er því ansi stíf dagskrá alla daga og mjög krefjandi starf. Flesta daga sinni ég stjórnendaráðgjöf og aðstoða fyrirtækin við að ná betri árangri í rekstri með faglegri mannauðsstjórnun,“ segir Ingunn. 

Attentus hefur fengið þó nokkrar viðurkenningar fyrir störf sín. Fyrirtækið fékk hvatningarverðlaun FKA árið 2012 fyrir „Brautryðjendastarf á sviði mannauðsstjórnunar á Íslandi“ og starfsmenntaverðlaun Íslands árið 2010 fyrir „Fræðslustjóra að láni“.

Hvað skiptir máli fyrir konur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnumarkaði?

„Læra að „sleppa“ tökunum á hinu fullkomna lífi. Aðalmálið er að fylgja sinni sannfæringu, hlusta á eigið brjóstvit og fá aðstoð. Ég lærði það þegar ég var í MBA-náminu árið 2005, nýbúin að taka við sem framkvæmdastjóri hjá Eimskip og með 3 ára gamalt barn að maður þarf að læra að treysta á fólkið í kringum sig og fá aðstoð bæði heima fyrir og við verkefni sem eru krefjandi ef maður vill skila þeim vel af sér. Leiðtogahæfni lærði ég því í náminu, virkja leiðtogann í manni sjálfum, bæði í vinnu og einkalífi.“

Hvernig var þinn ferill?

„Ég kláraði BA-gráðu í atvinnulífsfélagsfræði frá HÍ 1997, gaf út bók ásamt samnemanda mínum sama ár um starfsánægju. Ég fékk því snemma áhuga á mannlegri hegðun og starfsmannamálum og hef fylgt minni ástríðu alla tíð, þ.e. að aðstoða fólk að vaxa í starfi og auka eigin starfsánægju.

Fyrsta vinna mín eftir háskólanám, var starf ritara á skrifstofu borgarstjóra. Það var mjög lærdómsríkt að hefja sinn feril hjá Reykjavíkurborg og læra á kerfið. Seinna tók ég að mér setu í stjórn velferðarráðs, leikskólaráðs og menntaráðs og þarna nýttist reynslan vel.

Árið 1998 hóf ég störf í fræðsludeild Eimskips. Árin hjá Eimskip voru frábær tími og mjög gefandi. Ég mun búa að þessum skóla alla tíð. Það var einstakt að læra af leiðtoga eins og Herði Sigurgestssyni en hann var mikill leiðtogi á sviði stjórnunar, gæðamála og jafnréttismála. Eimskip fékk t.d. jafnréttisverðlaun og starfsmenntaverðlaun á þessum árum, undir hans stjórn og hann kenndi okkur öguð og fagleg vinnubrögð. Maður þurfti ávallt að vera reiðubúin að rökstyðja mál sitt og svara fyrir sig.

Ég fékk tækifæri á starfsþróun hjá Eimskip. Ég varð fræðslustjóri árið 2004 og framkvæmdastjóri starfsþróunarsviðs sama ár. Þetta var krefjandi tími og fyrirtækið í miklu breytingaferli. Á þessum tíma kom ég að mannauðsmálum fyrir Avion Group, Excel Air og Atlanta. Ég ákvað að segja starfi mínu lausu í lok árs 2006, en það ár vorum við búin að fækka starfsmönnum um 250 manns sem tók verulega á alla. Mig langaði því að breyta til og fara í uppbyggingarstarf á sviði mannauðsmála.

Í byrjun árs 2007 stofnuðum við þrjár Attentus. Rúmu ári síðar breyttist íslenskt atvinnulíf mikið og þetta var því nokkuð erfiður tími, en við náðum með þrautseigju og trú á hugmyndafræði okkar að halda áfram.

Á síðustu 10 árum, frá stofnun Attentus, höfum við unnið fyrir á annað hundruð fyrirtækja, í ólíkum atvinnugreinum. Þetta hefur verið frábær tími. Einnig hef ég tekið að mér stundakennslu við HR og HÍ, í stjórnun og mannauðsstjórnun. Jafnframt setið í fjögur ár í stjórn Icelandic Group og Öryggismiðstöðvarinnar.

Ég held að ég muni aldrei fara til baka, það eru forréttindi að starfa við það sem maður elskar og brennur fyrir,“ segir hún. 

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðunum þínum?

„Já, þegar við stofnuðum Attentus. Það var mjög góð tilfinning og allt sem fylgdi í kjölfarið.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Vellíðan. Það eru forréttindi að starfa við það sem maður elskar. Ég hef það að leiðarljósi í mínu starfi að vinna starf mitt faglega og á heiðarlegan hátt. Það er ólýsanleg tilfinning að sjá aðra vaxa í starfi og sækja áfram, þá líður mér vel. Ég er búin að hitta svo marga einstaklinga í kringum starfið mitt að það gefur mér mikið að sjá allt þetta góða fólk vaxa og dafna og takast á við nýjar áskoranir í lífinu. Ég vona að ég nái að sá einhverjum fræjum og aðstoði þannig fólk við að ná betri árangri í lífi.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Já, því miður. Það má segja að tíminn hjá Eimskip hafi verið mjög krefjandi í lokin, ég var í fullu MBA-námi og nýbúin að taka við sem framkvæmdastjóri, auk þess sem Eimskip var í miðju sameiningarferli við önnur félög, uppsögnum og í mikilli útrás. Ég fór í fæðingarorlof strax eftir starfslok og sú meðganga gekk erfiðlega og ég fæddi stúlku fyrir tímann. Ég var kyrrsett hluta af meðgöngunni. Ég veit í dag að það má eflaust tengja það við mikið vinnuálag og streitu.“

Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar stjórnendur í fyrirtækjum en karlmenn?

„Því miður eru of fáar konur í stjórnendahlutverki þó að við höfum náð ágætisárangri í stjórnum félaga, en það má skýra með kynjakvóta. Konur þurfa oft að hafa meira fyrir því að vera ráðnar stjórnendur í fyrirtækjum. Þær þurfa líka að læra að sleppa tökunum heima fyrir, fá aðstoð og virkja tengslanetið sitt, trúa á eigin getu og ekki gefast upp! Við getum þetta alveg eins og strákarnir!“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Ég á kvenfyrirmyndir út um allt. Ég er ótrúlega rík að traustum og góðum konum í kringum mig sem eru fyrirmyndir mínar í lífinu og hafa hvatt mig áfram og vísað mér veginn, bæði í vinnu og einkalífi. Ég á erfitt með að nefna eina konu, en þær eru út um allt. Það er einstakt að alast upp við kvenforseta, móður í ábyrgðarstöðu í rekstri, kvenbónda sem kenndi mér vinnusemi í sveitinni, systur sem er ávallt til staðar, allar vinkonur mínar sem eru eins og klettur í kringum mig og ávallt til staðar.  Síðan eru samstarfskonur mínar hjá Attentus miklar fyrirmyndir og það er ómetanlegt að vinna með svona sterkum konum sem maður getur ávallt leitað til og fengið ráð. Það má því segja að það sé heilt haf af kvenfyrirmyndum í kringum mig og þær eru út um allt.“

Ertu með hugmynd um hvernig er hægt að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt?

„Ég hef mikla trú á jafnlaunastaðlinum. Ég trúi því að hann muni aðstoða fyrirtæki við að útrýma launamun kynjanna. Við hjá Attentus komum að gerð staðalsins og höfum aðstoðað nokkur fyrirtæki við innleiðingu og það er mjög ánægjulegt að sjá að með faglegum vinnubrögðum í launasetningu er hægt að útrýma launamuninum. Stjórnendur verða meðvitaðir um ákvarðanatökuna og öll fagleg vinna í tengslum við ákvarðanatöku launa verður miklu skilvirkari.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Calander er minn besti vinur.  Ég set öll mín verkefni inn í dagbókina í símann. Annars veit ég ekkert hvar ég á að vera eða hvað ég á að gera.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Ég vakna alla morgna klukkan sjö, fer í sturtu, vek börnin, útbý morgunmat, fer út með hundinn og á gæðastund með börnunum þar sem við förum yfir daginn. Svo skutlar maður börnunum í skólann og heldur út í daginn. Þegar börnin eru hjá pabba sínum byrja ég oft daginn á góðum sundspretti.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Ég tók þá ákvörðun þegar ég skildi fyrir rúmu ári að þegar börnin væru hjá mér, þá ynni ég bara til fjögur eða jafnvel styttra. Ég vinn þá vikuna ekkert á kvöldin, á bara gæðastund með börnunum og hundinum. Hina vikuna vinn ég lengri vinnudag og ég ákvað líka í fyrra að skella mér í meira nám, en ég skráði mig í markþjálfun í Háskólanum í Reykjavík. Er það ekki dæmigert? Fráskilin kona sem skellir sér í meira nám og byrjar að ganga á fjöll? Það er eiginlega frekar fyndið!! Hvað er eiginlega að okkur konum? Annars var námið mjög gefandi og uppbyggilegt og kom á hárréttum tíma í mínu lífi. Ég mæli með þessu námi fyrir alla sem vilja byggja sig upp.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Ég er fjölskyldumanneskja nr. 1, 2 og 3.  Þegar börnin eru hjá mér, þá förum við oft í sund, eða einhverja útiveru. Hina vikuna hitti ég vinkonur mínar og fjölskyldu, geng á fjöll, ferðalög o.fl. Mér finnst frábært að hafa nóg að gera. Ég hef ávallt eitthvað skemmtilegt í dagbókinni, s.s. ferðalög, útivist, heimsóknir, matarboð o.fl.  Það er yfirleitt aldrei dauð stund hjá mér.“  

Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu?

„Ég ætla til Tenerife með dætrum mínum, bróður mínum og hans fjölskyldu. Í framhaldi heimsæki ég fjölskylduna til Danmerkur.  Ég breytist líklega í fjallageit í sumar, en ég mun ganga á 10 fjöll í júní undir góðri leiðsögn Vilborgu Everest-fara. Einnig fer ég með 20 konum yfir Fimmvörðuhálsinn.  Annars mun ég nýta flestar helgar og fara í bústað fjölskyldunnar á Laugarvatni, en þangað á ég ættir mínar að rekja og ég elska að vera þar úti, í stígvélum og lopapeysu með vélsögina á lofti í skógarhöggi. Þar fæ ég mína mestu næringu.“

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir.
Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál