Flúði áföllin með fíkniefnaneyslu

Katla Snorradóttir er nýjasti gestur Það er von.
Katla Snorradóttir er nýjasti gestur Það er von.

Katla Snorradóttir upplifði fjölda áfalla á unglingsaldri. Til að flýja erfiðar tilfinningar og fresta því að takast á við áföllin sótti hún í hugbreytandi efni. Katla er búin að vera edrú í 15 mánuði og hefur markvisst unnið í sjálfri sér. 

Katla ólst upp í Vestmannaeyjum og var að eigin sögn krefjandi barn með ADHD. „Ég man eftir því þegar ég var mjög ung að hafa leitað huggunar í mat. Ég tók mig til og fitnaði mikið og stækkaði. Ég var alltaf stærri en allir, orðin 184 cm við fermingu,“ segir Katla. 

Þegar Katla var tíu ára eignast mamma hennar nýjan mann sem beitti hana andlegu og líkamlegu ofbeldi á heimilinu. Þrettán ára var hún misnotuð kynferðislega og byrjaði í kjölfarið að fikta við það að reykja sígarettur. Hún reyndi svo að taka sitt eigið líf sem hún segir að hafi í raun verið kall á hjálp. 

19 ára gömul missir Katla móður sína án fyrirvara og nokkra aðra í kjölfarið. Hún leitaði í hugbreytandi efni í þeim tilgangi að flýja erfiðar tilfinningar. Tímarnir eftir það voru mjög erfiðir en hún flutti frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur og var mjög snögglega komin á slæman stað í neyslu. 

„Ég fór á einum degi úr því að vera húsmóðir í Vestmannaeyjum í bæli í Reykjavík,“ segir Katla. Faðir hennar sendir hana í meðferð í hennar fyrstu meðferð þegar hún var 24 ára en hún var ekki tilbúin til að takast á við sjálfa sig. Hún féll eftir þrjá mánuði og leitaði aftur í ofbeldissamband.

Það sem Katla kunni var að flýja og það gerði hún, hún fór til Tælands og hefur gert oftar en einu sinni, þar lærði hún sjálfsvörn. Katla útskýrir vel hvernig hún nær aldrei að flýja líðanina sína, sama hvert og hversu langt hún fer. Hún áttaði sig á því og var það mögnuð uppgötvun fyrir hana, þrátt fyrir að margir hafi reynt að hafa vit fyrir henni.

Árið 2018 hafði Katla þyngst mikið eftir að hafa leitast huggunar í mat í tvö ár og fór í magaermisaðgerð. Í kjölfar þeirrar aðgerðar þurfti hún að hætta að drekka og fór á hnefanum í níu mánuði. Síðasta ferðin til Tælands var í hálft ár 2019-2020.

„Ég man svo skýrt eftir því að sitja á strönd með vinum í mögnuðu umhverfi og allir að tala um hversu magnað þetta væri en ég fann ekkert, hugsaði bara hvort ég væri dauð að innan og yrði að fá mér, ég fékk mér og það gerðist ekkert. Efnin voru löngu búin að svíkja mig“.

Það kom uppgjöf og Katla fann að hún gæti ekki lifað lífinu með þessu móti og orðið hamingjusöm.

Þáttinn má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is