Hrúturinn: Þú breytir orkunni þinni í vellíðan

Elsku Hrúturinn minn,

það hefur verið allskyns ókyrrð í kringum þig og þú þarft að passa þig að láta ekki utanaðkomandi persónur hafa áhrif á þína líðan. Það hefur svo margt og mikið verið að gerast undanfarinn mánuð. Margt af því mun hjálpa þér að ná betra jafnvægi og tökum á því sem þú vilt að gerist.

Sá tími sem þú ert að fara inn í núna kemur með svör við svo mörgu. Þetta lætur þig sjá heildarmyndina, hvað skiptir máli og hvað er algjörlega aukaatriði?

Þetta er svo góður tími fyrir þig að semja um allt mögulegt, breyta orkunni þinni í vellíðan. Þú ert að fara inn í svo hamingjusamt tímabil sem sýnir þér ástina og þú lærir svo sannarlega svo vel að meta það sem þú hefur og það sem þú færð. Til þess að efla ástina þarftu einungis að gefa skilyrðislaust, vera auðmjúkur og þá dettur allt í rétta gírinn.

Þó þér finnist þú hafa verið vanmáttugur í mörgu, þá er það bara þín eigin skoðun því núna muntu nota þetta tímabil svo sterkt til að byggja þig upp. Það kemur yfir þig ólýsanleg ró sem þú nærð að nota til að styrkja þig og hjálpa öðrum.

Þú átt eftir og ert jafnvel búinn að hafa samband við þær manneskjur sem hafa einhverntímann gert þér lífið leitt. Því núna ertu svo tilbúinn að fyrirgefa, gleyma og laga þær aðstæður sem hafa orðið í lífi þínu. Svo í þessum anda þá styrkist hvert einasta bein í þínum kroppi.

Þetta tímabil sýnir þér líka nýja og sterka möguleika á því hvernig þú vilt byrja haustið. Þú ákveður og setur á framkvæmdalistann þinn öfluga hluti. Það er svo mikilvægt að skýra framkævdalistann sinn ekki tossalista, því þú ert enginn tossi, heldur persónan sem situr við stýrið í lífinu þínu. Þú einn berð ábyrgð á því hvernig þér líður, það er ákvörðun og þú einn þarft að taka hana og veröldin stendur svo sannarlega með þér.

Kossar og knús,

Sigga Kling

mbl.is