Bogmaðurinn: Hlustaðu og vertu fljótur að taka ákvörðun

Elsku Bogmaðurinn minn, 

þú ert að lenda inni í hröðu tímabili og þér mun líka það. Það er uppgjör í gangi ef lífið og vitleysan hefur verið að særa þig. Þú lokar þeim kafla og færð góðar fréttir. Þú ert búinn að breyta svo mörgu síðan í október, setja lífið þitt á annan og betri stað og núna er tími til að njóta.

Á milli 9. og 13. febrúar er að koma til þín eitthvað svo sterkt og merkilegt til þín sem þú ert búinn að bíða eftir. Svo hlustaðu vel og vertu fljótur að taka ákvörðun því annars geturðu misst frá þér það sem getur magnað upp líf þitt.

Í þér er karakter sem er svo hressandi og hreyfir við fólki, en stundum veist þú ekkert hver þú ert. þú horfir kannski í spegilinn á morgnana þegar þú ert að bursta tennurnar og spáir í hver er þetta eiginlega? Maður þekkir oft vini sína betur en sjálfan sig og veit þessvegna ekki hversu mikill ógnarkraftur býr í sálinni þinni. Þú sérð sjálfið stækka og veist hvað þú getur og þegar þetta gerist þá slítur þú leynt og ljóst tengingar við marga sem þú þekkir og styrkir önnur bönd.

Ef maki þinn eða ástvinur er ekki að fylgja þér í þessum krafti þá er mjög hugsanlegt það komi brot í samböndin. Ef þú einhvern tímann hefur í raun og veru elskað einhvern, en finnst allt svo flatt í augnablikinu, þá geturðu náð í tilfinningarnar aftur og lagað og gert við það sem þarf í þeim tengingum. Það er með sanni hægt að segja að þú munt sjá að þú ert mátturinn og dýrðin.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is