Hrúturin: Peningar breyta ekki öllu

Elsku Hrúturinn minn, þú ert stórkostlegur og fjörugur karakter með hjarta úr gulli. En á móti geturðu verið of krefjandi og uppstökkur þegar þú vilt ýta við hlutunum og að allt gangi nákvæmlega eins og þú vilt hafa það.

En þú ert miklu sneggri til sátta og skilur eiginlega ekki afhverju fólk tekur það nærri sér þegar þú byrstir þig. Þú hefur mikla réttlætiskennd, en aðallega þannig að þú hafir rétt fyrir þér. En þá geturðu tekið rangar ákvarðanir sem koma þér í stökustu vandræði. En í hjarta þínu hefur þú líka yfir að búa þessa ofurmjúku manneskju og getur fengið svo erfiða líðan þegar þú ert misskilinn.

Þegar þú ert hið viðkvæmastur reynirðu að fela það með yfirborðsgleði og kátínu. Þú þarfnast svo sannarlega að hafa maka eða manneskju sem þú getur treyst 100%. En það er svo aldeilis ekki þinn stærsti kostur að treysta fólki.

Þessi glimrandi ákefð og karakter sem þú geislar af í nóvember mun smita aðra til þess að vilja virkilega vera með þér í því partýi. Þú munt elska að hressa við fólk og að rífa aðra upp með þínum einstaka krafti og persónuleika. Og þér mun bjóðast, ef þú vilt, betri staða og athyglisverð verkefni sem þér finnast skemmtileg.

Það rennur bæði kraftur og botnlaus orka í gegnum þig. Svo haltu þig við þann áhuga sem þú hefur í raun á að hreinsa líkamann og að nota ekki hugbreytandi efni. Og þú þarft ekki alltaf að segja sannleikann við alla, því stundum og oft má satt kyrrt liggja. Og það getur verið leiðinlegt að vera of hreinskilinn, sérstaklega ef enginn var að biðja þig um álit.

Ekki festast í þeirri gildru að halda að peningar breyti öllu. Því staðreyndin er sú að heilu fjöllin af peningum munu ekki ná að fullnægja þér eða færa hamingju. Þú vilt öryggi og frelsi, og einhvernveginn verður útkoman sú að þú færð bæði.

mbl.is