Ljónið: Taktu bara eitt skref

Elsku Ljónið mitt, það er búinn að vera mikill titringur í kringum þig. Þú þarft að taka þá sterku ákvörðun að velja og hafna og þú þarft að velja það sem gefur betri líðan í hjartað. Því að betri líðan er það eina sem við öll eigum sameiginlegt að vilja.  En í því öllu þarftu að hafa áskoranir til þess að keppa og vinna að. Þær þurfa ekki að vera stórar, en  verða samt að vera einhverjar. Það eru líka alveg tær skilaboð um að þú mátt alls ekki umgangast þá sem brjóta niður varnirnar þínar. Þeir sem anda að þér dökkri orku sem þú, eins opinn og þú ert, tekur við.

Þú þarft að setja vernd í kringum þann stað sem þú býrð á, að hreyfa hluti til, mála. Og þegar þú málar, þá málarðu yfir gamalt til þess að bjóða nýju heim til þín. Þú ert svo hugumstór og þarft oftast að gera svo mikið ef þú gerir eitthvað á annað borð.  Taktu bara eitt skref og svo annað skref og ekki láta erfiðleikana og hörmungarnar á næsta bæ blandast inn í þínar, því þá missirðu orkuna.

Þú þolir illa að bíða, það er alls ekki þinn helsti kostur. Og þótt þú getir samt beðið eftir ýmsu, er þér það oftast erfitt, en þú virkilega þarft þolinmæði núna. Því að þegar komið verður fram yfir þann 15 nóvember, þá muntu sjá skýrt útkomuna á því sem þú þráir. Hafðu skarpa sýn í þessum titringi sem er í gangi og hvert þú ætlar og vilt fara. Þetta er svipað og að panta sér miða í leikhús, þú velur leikrit og tímasetningu. Ef þú ert til að mynda búinn að panta miða hjá Borgarleikhúsinu þýðir lítið að mæta í Þjóðleikhúsið. Hafðu það þannig alveg á hreinu hvað þú vilt og hvert að fara, því þá verður opnuð betri leið fyrir þig.

Þú ert svo næmur á Móður Jörð, og til dæmis þegar er stórstreymt, þá er spenna hjá þér. Og þegar tungl er nýtt eða fullt þá geta ástríður og ást opnast. Og svo margir aðrir þættir sem tengjast náttúrunni hafa áhrif á þig. En þá þarftu að passa þig á að vera ekki með huga og heila í neikvæðri spillingarorku, því þá magnast hún. Þú átt eftir að kalla á allan þann aga sem þú getur náð í. Og átt eftir að sigrast á sjálfum þér og að elska sjálfan þig meira en þú hefur áður gert. Það verður mikil heppni í fjölskyldu þinni og eitthvað af því er þér svo sannarlega að þakka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál